Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Grótta 38-24 │ Grótta steinlá á Selfossi

Einar Sigurvinsson skrifar
Grótta var í basli í kvöld.
Grótta var í basli í kvöld. vísir/stefán
Selfoss sigraði Gróttu örugglega með 14 mörkum, 38-24, á Selfossi í kvöld. Sigur heimamanna var aldrei í hættu en staðan í hálfleik var 21-11, Selfossi í vil.



Selfoss var betra lið vallarins frá fyrstu mínútu. Varnarleikur Selfyssinga var öflugur og þar fyrir aftan var Sölvi Ólafsson frábær. Á 13. mínútu var staðan 10-4 fyrir Selfossi og Sölvi Ólafsson með 56 prósent markvörslu.

Hinum megin á vellinum voru markvarðarparið, Hreiðar Levý og Egill Valur að eiga slæman dag en í hálfleik höfðu þeir aðeins varið eitt skot hvor. Selfoss fór inn í hálfleikinn með fyllilega verðskuldað tíu marka forskot, 21-11. 


Aðeins fór að draga undan yfirburðum Selfyssinga í upphafi síðari hálfleiks. Selfyssingar voru að tapa boltanum á klaufalegan hátt, en það kom þó ekki að sök, því Grótta gerði ávallt slíkt hið sama. Á 48. mínútu tók Patrekur Jóhannesson leikhlé, en þá var staðan 27-20.

Nær komst Grótta þó ekki því Selfyssingar sýndu sitt rétta andlið í kjölfarið og unnu síðustu 12 mínútur leiksins með sjö mörkum. Lokatölur 38-24. Frábær leikur hjá Selfyssingum.

Af hverju vann Selfoss leikinn?

Þetta var leikur kattarins að músinni frá fyrstu mínútu. Leikmenn Gróttu litu aldrei út fyrir að vera klárir í verkefnið á meðan Selfyssingar gáfu allt í botn. Sóknarleikur heimamanna var frábær og Sölvi Ólafsson átti stórleik í markinu.

Hverjir stóðu upp úr?

Sölvi Ólafsson í marki Selfoss sá til þess að Grótta var aldrei nálægt því að komast inn í leikinn. Á 13. mínútu var Sölvi búinn að verja 56 prósent allra skota sem á hann komu en hann endaði leikinn með tæplega 40 prósent markvörslu. 

Einar Sverrisson átti einnig mjög góðan leik og var markahæsti maður vallarins með 10 mörk.


Hvað gekk illa?

Það gekk bókstaflega allt illa hjá liði Gróttu. Markvarslan, sem hefur oftar en ekki verið þeirra sterkasta hlið, var arfa slök í kvöld. Hreiðar Levý kom útaf á 25. mínútu en þá hafði hann aðeins varið eitt skot af þeim 16 sem á hann komu. Egill Valur sem kom í hann stað náði heldur ekki að finna sig og varði aðeins fimm skot.

Sóknarleikur Gróttu var einnig slakur og var skotnýting liðsins ekki nema 52 prósent.

Hvað gerist næst?

Liðin fá ekki mikla hvíld því fimm leikir fara fram í Olís-deildinni næsta miðvikudag. Haukar mæta til Gróttu á Seltjarnarnesið og þurfa sárlega á báðum stigunum að halda, ætli þeir sér að ná fjórða sæti deildarinnar og heimavallarréttinum.

Stórleikur umferðarinnar fer síðan fram í Vestmannaeyjum þar sem ÍBV tekur á móti Selfossi. Bæði lið í harðri baráttu á efri hluti deildarinnar og verður án efa allt lagt í sölurnar við að tryggja sér stigin tvö.

Kári: Þeir voru miklu, miklu, betri

„Hvað á ég að segja, við vorum bara ekki að spila góðan handbolta í dag, það er nokkuð ljós. Við vorum ekki líklegir frá upphafi og lentum á Selfossliði sem var í miklum ham. Það er bara þannig að þeir voru miklu, miklu, betri en við,“ sagði Kára Garðarsson, þjálfari Gróttu, að loknu 14 marka tapi hans manna gegn Selfossi í kvöld.

Kári segir að það sé erfitt að finna ljósa punkta á leik liðsins eftir frammistöðu sem þessa.

„Þetta var ekki góður leikur, alveg sama hvað við lítum á, hlaup til baka eða tæknifeilar. Svo loksins þegar við sköpum okkur færi erum við að fara illa með þau. Þetta var ekki góður dagur af okkur hálfu.“

„Það er leikur eftir tvo daga, Haukar á miðvikudaginn. Við þurfum bara að spila miklu betur heldur en þetta ef við ætlum að eiga möguleika þar,“ sagði Kári að lokum.

 

Patrekur: Náttúrlega bara frábært

„Ég er ánægður með tvö stig og sérstaklega fyrri hálfleikinn. Að spila hann þannig að við erum tíu mörkum yfir er náttúrlega bara frábært,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss í leikslok.

Sölvi Ólafsson átti frábæran leik í marki Selfoss, en markvarslan hefur oft verið veikasti hlekkur Selfossliðsins í vetur. Patrekur vonast til þess markverðirnir séu að fara að mæta klárir í úrslitakeppnina.

„Sölvi og Helgi eru búnir að æfa mjög vel. Það var oft fyrr í vetur sem við vorum að vinna leiki þrátt fyrir að vera ekki með góða markvörslu, en Sölvi var góður í dag.“

„Nú eru þrír leikir eftir og við förum til Eyja á miðvikudaginn. Það verður erfitt verkefni, við vitum það alveg. Þá þurfum við góða frammistöðu í 60 mínútur,“ sagði Patrekur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira