Erlent

Kröfðu sýrlenskar konur um kynlíf í skiptum fyrir neyðaraðstoð

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna voru fyrst látnar vita af ofbeldinu fyrir þremur árum síðan.
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna voru fyrst látnar vita af ofbeldinu fyrir þremur árum síðan. Vísir/EPA
Konur í Sýrlandi hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu þeirra sem flytja hjálpargögn í landinu fyrir Sameinuðu þjóðirnar og önnur alþjóðleg hjálparsamtök, samkvæmt nýrri skýrslu mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna.

Í frétt BBC segir að hjálparstarfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafi orðið uppvísir að því að krefjast kynlífs fyrir aðstoð og mat. Athygli var vakin á málinu fyrir þremur árum síðan en þrátt fyrir það sýnir ný skýrlsa að þessi háttur viðgengst enn í suðurhluta landsins.

Sameinuðu þjóðirnar og öll helstu hjálparsamtök hafa gefið það út að þau hafi enga þolinmæði fyrir þesskonar hegðun og að ekki væri vitað um að slíkt viðgangist enn í suðurhluta landsins.

Í samtali við BBC sögðu hjálparstarfsmenn að misnotkunin sé svo algeng að sumar sýrlenskar konur neiti að fara á dreifistöðvar vegna ótta um að fólk gerði þá ráð fyrir að þær bjóði líkama sinn í skiptum fyrir það sem þær komu með heim.

Einn viðmælandi BBC sagði að sum hjálparsamtök leyfðu þessu að viðgangast vegna þess að samstarf við verktaka og sveitarstjórnir á svæðinu væri eina leiðin til að koma neyðaraðstoð til þeirra landshluta sem alþjóðasamtök hefðu ekki aðgang að.

Vísir/Getty
Boðið far í skiptum við kynlíf

Í skýrslu mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) segir:

„Dæmi voru um að konur eða stúlkur giftust embættismönnum í stuttan tíma fyrir kynferðislega greiða svo þær fengju máltíðir, dreifiaðilar báðu um símanúmer kvenna og stúlkna, skutluðu þeim heim til að „fá eitthvað til baka“ eða að þeir öfluðu vista „í skiptum fyrir heimsókn heim til þeirra“ eða „í skiptum fyrir þjónustu, líkt og að eyða með þeim nóttinni.“

Þar sagði jafnframt að konur sem nutu ekki verndar karlmanns, svo sem ekkjur, frjáskyldar konur eða konur á flótta væru sérstaklega viðkvæmar fyrir slíkri misnotkun.

Sem fyrr segir var fyrst vitað af misnotkuninni fyrir þremur árum síðan. Denielle Spencer, sem starfar sem ráðgjafi hjá hjálparsamtökum, heyrði fyrst ásakanir sýrlenskra kvenna í flóttamannabúðum í Jórdaníu í mars árið 2015. Hún stofnaði rýnihóp með konunum sem sögðu frá því að karlmenn í sveitarstjórnum í nágrenninu höfðu boðið þeim vistir í skiptum fyrir kynlíf.

„Þeir neituðu að láta af hendi vistir sem höfðu þegar verið afhentar og notuðu þessar konur fyrir kynlíf,“ segir Spencer í samtali við BBC.

Fólk sem konurnar eigi að geta treyst

Hún segir að sumar þeirra kvenna sem hún hafi rætt við hafi sjálfar orðið fyrir slíku ofbeldi.

„Ég man að ein konan í herberginu grét og hún var í miklu uppnámi vegna þess sem hún hafði upplifað. Konur og stúlkur þurfa að njóta verndar þegar þær reyna að fá mat og sápu og grundvallar vistir til að lifa af. Það síðasta sem þú þarft er að karlmaður sem þú átt að treysta og á að veita þér aðstoð, biðji þig um kynlíf og neiti að afhenda vistir.“

Vísir/EPA
Í júní árið 2015 var gerð könnun meðal 190 kvenna í Dara‘a og Quneitra. Um 40 prósent kvennanna sögðu að kynferðislegt ofbeldi ætti sér stað þegar þær nálguðust þjónustu, meðal annars aðstoð hjálparsamtaka.

Niðurstöðurnar voru kynntar fyrir hjálparsamtökum SÞ og öðrum hjálparsamtökum í Jórdaníu þann 15. júlí árið 2015. Einhver hjálparsamtök hertu verklag sitt í kjölfarið.

Fengu ekki leyfi til að kanna aðstæður í Jórdaníu

Hjálparsamtökin Care juku eftirlit sitt í Sýrlandi, komu upp verkferlum svo konur gætu leitað aðstoðar og neituðu að afhenda sveitarstjórnum á svæðinu vistir. Care óskaði einnig eftir því að ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna myndu koma af stað verkferlum svo tilkynna mætti ofbeldi. Samtökin fengu hins vegar ekki leyfi til að gera kannanir í flóttamannabúðum í Jórdaníu.

Sepencer segir að hjálparsamtök hafi horft gegnum hendur sér til að tryggja að aðstoð skilaði sér til suðurhluta landsins.

„Kynferðisleg misnotkun á konum og stúlkum hefur verið hunsuð, fólk hefur vitað af henni og hunsað hana í sjö ár,“ segir hún.

„Sameinuðu þjóðirnar og kerfið eins og það er núna hafa valið að fórna líkömum kvenna. Einhvers staðar hefur verið tekin ákvörðun um að það sé í lagi að líkamar kvenna séu notaðir og misnotaðir til að tryggja að aðstoð skili sér til stórs hóps fólks.“

Heimildarmaður BBC sem sat fundinn í júlí 2015 fyrir hönd einnar stofnunar Sameinuðu þjóðanna

„Þetta voru trúverðugar frásagnir af kynferðislegri misnotkun og kynferðisofbeldi sem áttu sér stað við úthlutun hjálparaðstoðar og SÞ gerðu ekkert marktækt til að að leysa þetta eða binda endi á þetta.“

Í frétt BBC er einnig rætt við talsmann Unicef sem staðfesti að hafa verið á fundinum í júli 2015. Sagði hann samtökin hafa farið yfir alla samstarfsmenn sína og verktaka í suður Sýrlandi og að þeim hefði ekki verið gert viðvart um neinar ásakanir á hendur þeim. Samtökin viðurkenndu hins vegar að kynferðisleg misnotkun væri alvarlegt vandamál í Sýrlandi og sögðust vera að vinna að starfsreglum og að því að bæta þjálfun starfsfólks.

Talsmaður flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, sagði að stofnunin væri meðvituð um ásakanirnar en að ekki hafi legið fyrir nægar upplýsingar svo hægt væri að grípa til aðgerða gegn ákveðnum einstaklingum eða samtökum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×