Handbolti

Nielsen missir af restinni af tímabilinu með ÍBV

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Stephen Nielsen hefur spilað stórvel eftir áramót.
Stephen Nielsen hefur spilað stórvel eftir áramót. vísir/vilhelm
Stephen Nielsen, markvörður ÍBV í Olís deildinni í handbolta, meiddist í sigri liðsins á FH á dögunum og verður frá út tímabilið. Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, staðfesti þetta við blaðamann Vísis í Eyjum fyrir leik liðsins við Selfoss sem nú stendur yfir.

Sin rifnaði í tvíhöfða Stephen í leiknum gegn FH á mánudaginn, sem ÍBV sigraði 37-29. Þrátt fyrir það varði hann 16 bolta í leiknum og skoraði 2 mörk og því eru meiðsli hans mikið skarð fyrir skildi í liði ÍBV.

Annar markmaður Eyjamanna, Aron Rafn Eðvarðsson, missteig sig snemma leiks gegn Selfossi og þurfti að fara af velli. Hann er þó kominn aftur í mark Eyjamanna, en virðist ekki vera í topp standi.

Andri Ísak Sigfússon er þriðji markmaður Eyjamanna og er með Aroni Rafni á skýrslu í leiknum í kvöld. Þegar 20 mínútur eru liðnar af leiknum leiðir ÍBV með fimm mörkum, 13-8. Beina lýsingu frá Vestmannaeyjum má sjá hér.

ÍBV er í öðru sæti Olís deildar karla og er af mörgum talið eiga möguleika á að fara alla leið í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn ásamt því að liðið er í undanúrslitum Coca cola bikarsins og 8-liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×