Umfjöllun og viðtöl: Afturelding - Grótta 27-29 | Gróttumenn sóttu tvö mikilvæg stig í Mosfellsbæ

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Bjarni Ófeigur Valdimarsson átti mjög góðan leik í kvöld.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson átti mjög góðan leik í kvöld. Vísir/Stefán
Grótta sótti sterkan sigur í Mosfellsbæ í fyrsta leik 18. umferðar Olís deildar karla í dag. Gestirnir af Seltjarnarnesi settu tóninn strax í upphafi leiks og unnu nokkuð verðskuldað eftir að hafa verið yfir nærri allan leikinn.

Grótta komst í þriggja marka forystu snemma leiks en heimamenn náðu að koma til baka og jafna leikinn. Nokkuð jafnræði var með liðunum framan af en Gróttumenn voru þó skrefinu framar mest allan fyrri hálfleikinn þrátt fyrir að Afturelding hafi náð að komast yfir tvisvar, þrisvar. Tveimur mörkum munaði á liðunum í hálfleik, 12-14.

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn miklu sterkari og komu sér í sex marka forystu, 13-19 eftir tæpar 10 mínútur. Þá vöknuðu heimamenn aðeins en þeir náðu þó ekki að saxa almennilega á forystu Gróttu fyrr en undir lokin.

Loka mínúturnar urðu mjög spennandi en aðeins einu marki munaði þegar mínúta var eftir af leiknum. Gróttumenn náðu þó að halda þetta út og fóru með mikilvægan sigur.



Afhverju vann Grótta?

Gestirnir mættu sterkari til leiks og virtust tilbúnari í verkefnið. Þeir voru að spila flottan varnarleik og áttu heimamenn í Aftureldingu erfitt með að finna lausnir í sókninni, sérstaklega framan af leik.

Þeir gerðu sér óþarflega erfitt fyrir með að missa þetta niður undir lokin, eins og hefur verið raunin hjá Seltirningum oftar í vetur, en unnu að lokum verkskuldað.

Hverjir stóðu upp úr?

Bjarni Ófeigur Valdimarsson átti stórleik í liði Gróttu með 10 mörk, þar af gerði hann í kringum helming allra marka Gróttu í seinni hálfleiknum. Þá átti Júlús Þórir Stefánsson góðan leik sem og Pétur Árni Hauksson.

Hjá heimamönnum var í raun enginn sem stóð sérstaklega upp úr.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn gekk illa hjá heimamönnum eins og áður sagði. Þá var markvarslan ekkert sérstök hjá þeim Lárusi Helga Ólafssyni og Kolbeini Aroni Arnarssyni.

Nokkuð var um tapaða bolta hjá báðum liðum og var svolítill klaufaskapur í mönnum á tímabili.

Hvað gerist næst?

Grótta á leik við Fram á fimmtudaginn, en það er leikur sem var frestað vegna bikarleikjanna núna í vikunni. Afturelding fær Fjölni í heimsókn hingað í Varmá eftir viku í næstu umferð og þá mætir Grótta Selfossi.

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu.Vísir/Stefán
Kári: Spiluðum vel frá fyrstu mínútu

„Það er mikil gleði að vinna Aftureldingu,“ voru fyrstu viðbrögð Kára Garðarssonar, þjálfara Gróttu, eftir leikinn.

„Við spiluðum þennan leik mjög vel frá fyrstu mínútu. Mínir menn voru öflugir í varnarleiknum, mér fannst Afturelding vera í vandræðum í mörgum sóknum á móti okkur sem ég var mjög sáttur með og svo var framlag frá mörgum í sóknarleiknum. Mjög heilsteyptur leikur og mikilvæg stig.“

Aðspurður hvort varnarleikurinn hafi skapað sigurinn sagði Kári svo vera. „Fyrst og fremst. Þeir þurftu mikið til að búa sér til færi og við vorum með agressíva bakverði sem mér fanst heppnast vel. Auðvitað vantar töluvert í Aftureldingarliðið en það vantar líka marga hjá okkur og þetta var vel leikinn leikur af okkar hálfu.“

„Þessi varnarleikur okkar er að þróast í spennandi áttir og það er eitthvað sem gæti hjálpað okkur í framhaldinu,“ sagði Kári Garðarsson.

Einar Andri ræðir við sína menn.vísir/eyþór
Einar Andri: Get ekki skrifað þetta á neitt annað en andleysi

„Grótta er hörkugott lið og er að berjast bæði um sæti í deildinni og úrslitakeppninni svo við hefðum átt að vita betur en að mæta værukærir til leiks,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir leikinn.

„Hrikaleg vonbrigði að mæta svona til leiks á heimavelli.“

„Ég get ekki skrifað það á neitt annað,“ sagði Einar Andri aðspurður hvort andleysi hafi kostað þá sigurinn í dag. „Það vantaði hugarfarið á bak við allar aðgerðir. Náum að komast yfir á ágætis kafla í fyrri hálfleik en lendum svo undir og byrjum seinni hálfleikinn skelfilega.“

„Heilt yfir var frammistaðan mikil vonbrigði,“ sagði Einar Andri Einarsson.

Hreiðar Levý Guðmundsson, markvörður Gróttu.vísir/stefán
Hreiðar: Skiptir ekki máli hvort við vinnum með tveimur eða fimm

„Rosalega mikilvægt. Frábær sigur sem hjálpar okkur að halda okkur nálægt liðunum í áttunda sæti og komast fjær liðunum fyrir neðan,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson, markmaður Gróttu sem átti fínan leik í dag.

„Þetta gerir möguleikana meiri,“ sagði Hreiðar aðspurður hvort hann haldi að Grótta geti náð úrslitakeppninni.

„Við tökum einn leik í einu og sjáum hvar við endum en við erum orðnir nokkuð segir. Höfum verið upp og niður eftir jól svo við sjáum til.“

Grótta gerði sér erfitt fyrir í lokin eins og áður segir, og ekki í fyrsta skipti í vetur.

„Vorum smá stressaðir og farnir að reyna að halda. En sýndum karakter í lokinn og héldum þessu. Skiptir engu máli hvort við vinnum með tveimur eða fimm. Við unnum leikinn og það er fyrir öllu,“ sagði Hreiðar Levý Guðmundsson.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira