Erlent

Forseti Íran hyggst standa við samning um kjarnorkuáætlun

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Hassan Rouhani er í opinberri heimsókn í Indlandi um þessar mundir
Hassan Rouhani er í opinberri heimsókn í Indlandi um þessar mundir Vísir/AFP
Hassan Rouhani, forseti Íran, hyggst standa við fjölþjóðlegan samning um kjarnorkuáætlun Írana sem skrifað var undir árið 2015. Reuters greinir frá.

„Við munum standa við gerða samninga,“ sagði Rouhini á fundi í Nýju-Delí í dag. „Að fara gegn samningum sem þegar hafa verið undirritaðir er fáránlegt,“ sagði hann.

Samkomulagið sem Íran gerði við Bandaríkin, Frakkland, Bretland, Þýskaland, Rússland og Kína felur í sér að Íranir takmarki kjarnorkuáætlun sína gegn því að refsiaðgerðum þjóðanna verði hætt.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur verið harðorður í garð samkomulagsins og hefur sagt að hann ætli að draga til baka stuðning við kjarnorkusamninginn. Hann hefur talað fyrir harðari leiðum í samskiptum við ríkið.

Rouhini segir að ef Bandaríkin dragi sig út úr samningunum muni þau sjá eftir því. „Ef Bandaríkin standa ekki við samninginn munuð þið sjá að Bandaríkin muni sjá eftir að taka þá ákvörðun,“ sagði hann. Þá sagði hann að landið hafi ávallt staðið við alla sína samninga ef hinn aðilinn hafi staðið við sinn hluta.

Forsetinn er í þriggja daga opinberri heimsókn á Indlandi til að auka tengsl landanna og samvinnu í efnahagsþróun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×