Viðskipti innlent

Una tekur við leigumarkaðsmálum hjá Íbúðalánasjóði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði.
Una Jónsdóttir, hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði. ÍLS
Una Jónsdóttir hagfræðingur hefur verið ráðin til að stýra deild leigumarkaðsmála hjá Íbúðalánasjóði. Una starfaði áður sem hagfræðingur í hagdeild sjóðsins og hafði þar meðal annars með höndum greiningar á stöðu leigjenda og ástandi leigumarkaðarins.

Fram kemur í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði að deild leigumarkaðsmála styðji „við það markmið Íbúðalánasjóðs að stuðla að því að landsmenn búi við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum.“

Haft er eftir Unu í tilkynningunni að hún sé spennt að takast á við verkefnið. „Leigumarkaðurinn hefur ekki alltaf fengið næga athygli, meðal annars af því að áreiðanleg gögn og greiningar um markaðinn hefur skort. Einnig hefur þótt hálfgert neyðarúrræði að vera á leigumarkaði og áhugi á honum þannig kannski ekki mikill. Við ætlum að reyna snúa þeirri þróun við. Það verður alltaf hlutfall þjóðarinnar sem þarf að treysta á öruggan leigumarkað og því er mikilvægt að hann sé til staðar,“ segir Una.

„Deild leigumarkaðsmála greinir markaðinn og þarfir þeirra sem þar eru og kemur með tillögur að úrbótum. Í gegnum tíðina hefur margt áunnist varðandi stöðu leigjenda en betur má ef duga skal. Það þarf að þroska leigumarkaðinn og hlusta á þarfir allra aðila sem þar eru, og er það einn helsti tilgangur starfs leigumarkaðsdeildarinnar,“ bætir hún við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×