Skoðun

Klíptu mig, þetta hlýtur að vera draumur

Alexandra Kristjánsdóttir skrifar
Hvað langar þig mest til að gera? Hver er þinn stærsti draumur í lífinu? 

 

Ég er hér til þess að segja þér að draumurinn þinn getur ræst alveg sama hversu ólíklegt það virðist í augnablikinu. 

Eins og allflestir, hefur mig alltaf langað til þess að ferðast. Þegar ég var aðeins fjórtán ára var ég byrjuð að skipulegga ferðina mína, ég ætlaði að ferðast í heilt ár, fara t.d. til eyja eins og Bora Bora og Ástralíu og ætlaði að gera þetta allt með þáverandi vinkonu minni. En lífið er margbrotið. Áður en ég vissi af var ég orðin 21 árs, var að byrja í háskóla og búinn að útvega mér fyrsta leiguhúsnæðið mitt með annari vinkonu. Innst inni ætlaði ég mér enn að fara í ferðina, þótt að ég vissi ekki hvernig. En þá gripu örlögin í taumana.  

 

Í janúar á síðasta ári var mér sendur Facebook linkur. Fjölskylda frá Ameríku var að leita eftir kennara/barnfóstru til að hjálpa þeim með börnin sín þrjú og... þau voru að selja húsið sitt til þess að ferðast um heimin í heilt ár!!! 

Að hugsa sér, heimsreisa þar sem að maður væri á launum og þurfti ekki að eyða krónu! Þetta var eitthvað svo fullkomið. 

Ég ákvað strax að sækja um og búa til myndband. En það var ekki fyrr en ég var búin að taka upp meirihlutan af myndbandinu þegar ég sá að þau voru hætt að taka við umsóknum. Þau höfðu stytt umsóknarfrestinn þar sem að þau voru búin að fá yfir 24 þúsund umsækjendur!

Ég var alveg miður mín - búið að loka fyrir umsóknirnar og svona svakalegur fjöldi umsækjenda, hvernig keppir maður við það? 

En ég er heppin með foreldra mína, þau sögðu mér að ég geti aldrei ætlast til þess að draumar mínir rætist nema að ég fylgi þeim fast eftir full þrautseygju og ákveðni. 

Svo ég ákvað að reyna samt og nokkrum dögum seinna var heimasíðan mín komin í loftið. Í henni voru upplýsingar um mig og umsóknin mín. Ég sendi það inn til þeirra og ákvað að alveg sama hvað, þá væri ég búin að gera mitt besta. 

Það liðu nokkrir dagar og til að gera langa sögu stutta komst ég í viðtölin. Ég var alveg í skýjunum!! ... en ég fékk ekki starfið. Samt sem áður var ég bæði þakklát og ánægð með að hafa náð svona langt, og það sem mestu skipti máli, stolt af sjálfri mér. 

Lífið gekk aftur sinn vanagang. En nokkrum dögum áður en að Háskólinn byrjaði var haft samband við mig. Það var ameríska fjölskyldan! Hlutirnir höfðu ekki alveg gengið upp með barnfóstruna sem þau völdu og þau vildu heyra í mér hljóðið og fá annað viðtal. Daginn fyrir fyrsta skóladaginn minn sögðu þau mér að ef ég væri til þá vildu þau fá mig með sér í heimsreisuna þeirra! Ég ætla ekkert að neita því, ég bókstaflega grét af gleði! 

Líf mitt í dag er alger draumur, þetta er það sem mig hefur alltaf dreymt um og miklu meira en það! Ég trúi því stundum ekki að þetta sé raunveruleikinn minn. Ég er nú þegar búin að ferðast til svo margra og framandi landa og upplifa svo ótal, ótal margt. Ég er ævinlega þakklát og nú eru svo margir spennandi tímar framundan.

Af hverju er ég að segja þér allt þetta? Því ef ég hefði gefist upp, ef ég hefði ekki haldið áfram þótt að þau væru búin að segja við alla að þau tækju ekki við fleiri umsögnum þá hefði ég misst af mögnuðustu upplifun lífs míns.

Ég er að segja þér í þeirri von um að hvetja þig og segja að þú getir látið óskir þínar og drauma rætast. Alveg sama hverjar þér finnist líkurnar vera, hver fortíð þín er, eða hindranir, þú getur það. 

Hverju ertu að bíða eftir?




Skoðun

Sjá meira


×