Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Grótta 24-26 | Grótta hafði betur í Mýrinni

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Aron Dagur spilaði ekki með Stjörnunni í kvöld vegna meiðsla.
Aron Dagur spilaði ekki með Stjörnunni í kvöld vegna meiðsla. Vísir/Vilhelm
Grótta vann mikilvægan útisigur á Stjörnunni í kvöld, 24-26. Gestirnir leiddu leikinn allan tímann og tóku með sér tvö stig úr Mýrinni, en staðan í hálfleik 10-11. 

Það tók Stjörnumenn þó nokkrar mínútur að komast inní leikinn en þeirra fyrsta mark kom á 8. mínútu. Vörn Gróttu var þétt og fyrstu tvö mörk heimamanna komu úr vítakasti en það breyttist þó þegar líða tók á leikinn og staðan jöfn 5-5 eftir fyrsta stundarfjórðunginn. Grótta leiddi þó allan leikinn og náði þegar mest var 5 marka forystu, en staðan þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks 10-11, Gróttu í vil. 

Síðari hálfleikurinn byrjaði á sömu nótum, Stjarnan að elta og gestirnir einu til tveimur mörkum yfir en náðu síðan fimm marka forystu þegar um stundarfjórðungur var eftir. Heimamenn snéru þá leiknum við og minnkuðu muninn niður í eitt mark en þeim vantaði alltaf aðeins uppá svo þeir næðu forystunni, Gróttumenn ívið sterkari og unnu að lokum með tveimur mörkum, 24-26, sanngjarn sigur. 

Afhverju vann Grótta

Þeir voru einfaldlega sterkari á öllum sviðum í dag, sóknarlega voru þeir að spila vel, vörnin var ótrúlega þétt og vel skipulögð og Hreiðar Levý átti síðan góðan leik þar fyrir aftan. Grótta missti gott forskot niður tvisvar í leiknum, þá misstu leikmenn aðeins einbeitinguna, Kári tók þá leikhlé og stillti sína menn sem snéru leiknum aftur sér í hag. Flott liðsheild og sterkur sigur. 

Hverjir stóðu uppúr 

Pétur Árni Hauksson átti aftur mjög góðan leik fyrir Gróttu. Hann var yfirburðar maður í síðasta leik liðsins og í dag var hann einnig lykilmaður. Skoraði 6 mörk, var frábær í vörninni og skapði mikið í sókninni. Þá áttu þeir Bjarni Ófeigur og Daði Laxdal einnig góðan leik í dag sem og Hreiðar Levy sem varði 16 bolta með 40% markvörslu. 

Hjá Stjörnunni var það Egill Magnússon sem stóð uppúr, atkvæðamestur með 8 mörk, þó úr ansi mörgum skotum en sóknarleikur Stjörnunnar var mikið undir honum komin í dag. Ari Magnús var rólegur og Aron Dagur meiddur. Lárus Gunnarsson kom flottur í markið í seinni hálfleik með 9 varin skot og tæplega 40% markvörslu. 

Hvað gekk illa

Það gekk margt illa hjá Stjörnunni í dag, varnarleikurinn ekki nógu góður, mikið af töpuðum boltum í sókninni og þeir voru heilt yfir illa skipulagðir. Einnig fóru of mörg dauðafæri forgörðum sem telur mikið í svona leik. Ari Magnús var heldur rólegur í dag og svo það lá mikið á Agli Magnússyni hinu megin. Sveinbjörn Pétursson hefur átt betri daga í markinu hjá Stjörnunni en hann klukkaði aðeins 5 bolta í fyrri hálfleiknum. 

Hvað er framundan

Í 17.umferð mætir Stjarnan Víkingi sem er að berjast fyrir sæti sínu í deildinni, ætti að vera formsatriði fyrir Stjörnuna að vinna þann leik. Grótta mætir Fram, liðin í 9 og 10 sæti deildarinnar að mætast þar, mikilvægur leikur á Nesinu.

Einar: Það var margt að hjá okkur í dag

„Það vantaði meira en herslumun“ sagði Einar Jónsson þjálfari Stjörnunnar, að leik loknum.

„Við vorum bara ekki góðir, því miður. Sóknarleikur, varnarleikur, þetta var bara ekki góður leikur hjá okkur. Markvarslan svo sem betri en oft áður, get ekki kvartað yfir því, Lalli var flottur í seinni hálfleiknum, það var bara margt annað sem var ekki nógu gott.“

„Við byrjum báða hálfleikana illa, erum að elta þá allan leikinn, 3-5 mörkum undir í hvorum hálfleik og það er bara erfitt. Gróttu menn voru skynsamir og spiluðu vel, við áttum bara ekki meira skilið.“ sagði Einar sem sá lítið jákvætt eftir leikinn. 

Aron Dagur Pálsson spilaði ekki með Stjörnunni í dag, hann meiddist á æfingu í gær. Ari Magnús Þorgeirsson átti rólegan leik og því lá mikið á hinni skyttunni, Agli Magnússyni.

„Ari var alveg fínn fannst mér, bara þrjú mörk en sex stoðsendingar. Það voru bara margir sem voru ekki nógu góðir í dag.“ sagði Einar sem veit lítið um meiðsli Arons, hann tognaði aftan í læri en Einar gat ekki gefið 100% svar um framhaldið með hann, nema að hann fari til læknis á morgun. 

„Framhaldið hjá okkur er bara æfing á morgun þar sem við tökum stöðuna, förum yfir þennann leik, það þýðir ekkert að fara að hugsa um úrslita keppnina núna. Farsælast að taka bara einn leik í einu, næsti leikur er á móti Víking og við þurfum að undirbúa hann vel.“ sagði Einar að lokum en Stjarnan er ennþá í 8. sæti deildarinnar með 13 stig, en Grótta nú komið í 9.sætið 5 stigum á eftir þeim. 

Kári: Númer 1,2 og 3 að halda okkur í deildinni

Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu, var mjög ánægður með sína menn eftir mikilvægan sigur í kvöld. 

„Þetta endaði með sigri, við vorum yfir allan leikinn og það er frábært að vinna þetta öfluga Stjörnulið. Strákarnir sýndu mikinn karakter, svo ég fari nú með gamla góða frasann hérna, en síðasti leikur voru mikil vonbrigði fyrir okkur og þess vegna gaman að sjá gamla liðið aftur í dag.“

„Ég fékk framlag frá mjög mörgum í dag, varnarleikurinn var góður þar sem við náðum að halda Stjörnunni niðri í því sem þeir eru góðir í og svo var margt í sóknarleiknum sem ég var ánægður með, framlag frá mörgum eins og ég nefndi og þessi liðsframmistaða sem verður til þess að við vinnum í dag.“ sagði Kári, en það er alveg rétt hjá honum að karakter og liðsheild skilaði þeim sigri í kvöld.  

Þrátt fyrir að Grótta hafi leitt allan leikinn þá gerðu þeir þetta spennandi allt fram á síðustu mínútu. Mest náðu þeir 5 marka forystu en alltaf tókst þeim að hleypa Stjörnunni aftur inní leikinn. 

„Það var pressa á okkur undir lokin og þá sýndu strákarnir hvað í okkur býr og klárðu leikinn. En við vorum með fimm marka forystu og hefðum getað náð sex mörkum um miðjan seinni hálfleik en þeir ná á okkur atlögu enda með mjög gott lið. Ég svo sem hélt ekkert að þetta væri búið en það hafði verið fínt að vera ekki algjörlega á taugum hérna á loka mínútunum en frábært að loka þessu.“ 

Grótta er nú í 9. sæti deildarinnar með aðeins 9 stig eftir 16. leiki. Liðið hefur sýnt að það býr mikið í þeim með mikilvægum sigrum líkt og gegn Val og nú Stjörnunni. Kári segir lykil markmið að halda sér í deildinni en að þeir eigi algjörlega möguleika á sæti í úrslitakeppninni

„Allir punktar mikilvægir fyrir okkur, við erum með 9 stig núna og höfum verið að sækja stig núna seinni hlutann á mótinu þannig að þetta er áfram barátta og aðal markmiðið að halda okkur í deildinni, það er ekkert í húsi ennþá. Ég tel alveg líkur á því að ná sæti í úrslitakeppninni en til þess þurfum við að halda rétt á spöðunum, næsti leikur gagn Fram er gríðalega mikilvægur og gæti skipt sköpum hvað varðar úrslitakeppnina en númer 1, 2 og 3 er okkar markmið að halda okkur í deildinni.“

Nökkvi Dan Elliðason hefur átt gott tímabil fyrir Seltyrninga en hann meiddist í síðasta leik og var ekki á skýrslu í dag

„Nökkvi var skoðaður strax eftir leik, hann fékk högg á hnéð í þeim leik. Hann fer í segulómskoðun á morgun og þá kemur í ljós hvað þetta er. Hann getur verið frá í stuttann tíma eða eitthvað þeim mun lengri tíma segja læknar. Ég vona bara það besta því Nökkvi hefur verið að spila vel undafarið.“ 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira