Handbolti

Skyldusigur í kvöld: „Þurfum að koma okkur inn á HM“

Sindri Sverrisson skrifar
Janus Daði Smárason er klár í slaginn gegn Eistlandi í kvöld.
Janus Daði Smárason er klár í slaginn gegn Eistlandi í kvöld. Vísir/Arnar

Janus Daði Smárason segir leikinn við Eistland í kvöld skyldusigur og er staðráðinn í að komast með Íslandi inn á næsta heimsmeistaramót í handbolta.

„Við hlökkum til að spila í Höllinni,“ segir Janus sem verður á ferðinni í Laugardalshöll í kvöld þegar fyrri leikurinn við Eistland fer fram. Seinni leikurinn verður svo ytra á laugardaginn þar sem önnur þjóðanna mun fagna HM-sæti.

Janus hefur haft í nógu að snúast með Magdeburg í Þýskalandi í vetur en liðið er á toppi þýsku deildarinnar og komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu, eftir háspennueinvígi við Kielce sem endaði í vítakeppni. Þá varð Janus þýskur bikarmeistari í síðasta mánuði. Hann segir leikjaálagið hjálpa nú þegar kemur að einvíginu við Eistland.

„Það er nóg að gera hjá okkur úti og mikið af leikjum, svo maður er í fínum takti, eins og flestallir hjá okkur. Það telur [í dag] að vinna heimaleikinn,“ segir Janus.

Klippa: Janus um leikinn við Eistland í kvöld

Nokkuð er um meiðsli í íslenska hópnum og til að mynda er fyrirliðinn Aron Pálmarsson ekki með.

„Við búum að því að eiga mjög marga hæfileikaríka handboltamenn í dag. Það er alltaf leiðinlegt að missa menn út en þetta er týpískt undir lok tímabils. Þetta er langt og strembið tímabil hjá okkur öllum, og við leysum þetta bara,“ segir Janus.

„Við þurfum að koma okkur inn á HM. Það er algjör lykill og verðugt verkefni. Við teljum okkur vera með hörkulið í höndunum og þurfum bara að ná úrslitum,“ segir Janus, en er um skyldusigur að ræða? „Já, mér finnst það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×