Viðskipti innlent

Hátt í hundrað börn fá hjálp úr atvinnulífinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgvin Ingibergsson starfar hjá Tölvuteki eftir hádegi á miðvikudögum og kann því vel. Fyrirtækin sem taka þátt eru fjölbreytt.
Björgvin Ingibergsson starfar hjá Tölvuteki eftir hádegi á miðvikudögum og kann því vel. Fyrirtækin sem taka þátt eru fjölbreytt. Vísir/Anton Brink
 „Ég byrjaði í ágúst og kann mjög vel við mig,“ segir Björgvin G. Ingibergsson. Hann er nemandi í 10. bekk Háaleitisskóla. Hluta úr skólatímanum starfar hann í versluninni Tölvutek. Þar hefur hann bæði fengið að vinna á verkstæðinu og í ráðgjöf við kúnna eftir hádegi á miðvikudögum. Hann segir hvort tveggja henta sér, en þó sé skemmtilegra í versluninni. „Mér líkar best við mig hér að hjálpa fólki. Ég spila rosalega mikið tölvuleiki og á auðvelt með að leiðbeina fólki að því sem það er að leita að hérna,“ segir hann.

Björgvin er þátttakandi í verkefninu Atvinnutengt nám sem Reykjavíkurborg býður upp á í samstarfi við atvinnulífið. Þar er nemendum gefið tækifæri á að kynnast atvinnulífinu. Markmiðið er að mæta þeim nemendum sem líður illa í skóla og eiga undir högg að sækja félagslega. Þá er markmiðið að bæta líðan nemenda, að styrkja sjálfsmynd þeirra og vinna með umhverfislæsi þeirra.

Börnin geta unnið allt að fjórar klukkustundir á viku, en ein klukkustund jafngildir 1,5 kennslustundum. Á hverjum vinnustað njóta þau leiðsagnar verkstjóra eða annarra starfsmanna.

Arna Hrönn Aradóttir, hjá Þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, er verkefnastjóri Atvinnutengds náms. „Það sem við erum að vinna í núna er að fá meira samstarf við atvinnulífið af því að núna er ég með 25 krakka á biðlista og ég fæ ekki pláss fyrir þau. Mig vantar fleiri fyrirtæki.“ Núna eru 85 grunnskólabörn í Atvinnutengdu námi og hefur eftirspurn aukist verulega eftir áramót.

„Þetta er oftast mætingarvandi og það er skólaleiði hjá 9. og 10. bekk. Börnin einangrast félagslega og þetta er kvíði,“ segir Arna um ástæður þess að nemendur sækja í þetta úrræði. Börnin þurfi að fá tækifæri til að efla sig á öðrum vettvangi en í skólanum. Reykjavíkurborg greiðir nemendunum fyrir vinnuna og fær nemandi í 9. bekk 600 krónur en nemandi í 10. bekk fær 800 krónur.

Fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu með því að bjóða börnum vinnu eru fjölbreytt. Arna segir athuganir benda til þess að nemendur sem þiggja þetta úrræði hafi valið að fara í iðnnám að lokum grunnskóla frekar en að hætta í skóla. „Kokkanám, bifvélavirkjun, málmsmíði og þar fram eftir götunum,“ segir hún.

Uppfært klukkan 10:25

Í fyrri útgáfu fréttarinnar stóð að Björgvin væri í Hvassaleitisskóla. Hið rétta er að hann er í Háaleitisskóla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×