Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Selfoss 25-37 | Selfoss í stuði í Breiðholtinu

Gabríel Sighvatsson skrifar
Elvar Örn Jónsson.
Elvar Örn Jónsson. Vísir/Ernir

Selfoss sótti ÍR heim í Breiðholtið í frestuðum leik í 17. umferð Olís-deildar karla í kvöld. Lokatölur urðu 37-25 og afgerandi sigur Selfoss staðreynd.

Selfoss var með yfirburði frá fyrstu mínútu og strax í hálfleik voru þeir komnir með 21 mörk. Sóknarleikur ÍR var með ágætum í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik fóru þeir að gera fleiri tæknifeila og Selfoss refsaði.

Fljótlega varð ljóst í hvað stefndi. Selfoss hélt sama krafti allar 60 mínúturnar og gjörsamlega keyrði yfir heimamenn og unnu þar með sinn annan sigur á ÍR á tímabilinu.

Hverjir stóðu upp úr?
Flestallir í Selfoss voru frábærir. Teitur Örn Einarsson var markahæstur með 10 mörk og fylgdu Einar Sverrisson og Haukur Þrastarson honum í humátt með 9 og 7 mörk hvor um sig.

Sölvi Ólafsson var með 17 varða bolta en hinum megin varði Grétar Ari Guðjónsson 15 bolta í heild. Sturla Ásgeirsson var með 6 mörk hjá ÍR.

Hvað gekk illa?
Í einu orði sagt, varnarleikur. Varnarleikur ÍR var ekki til staðar í leiknum. Að fá 37 mörk á sig í handboltaleik er mjög slakt og verður farið vel yfir það eftir leik.

Sóknarleikur ÍR var fínn og skoruðu þeir heil 25 mörk en varnarleikur Selfoss var þó mun betri þegar á reyndi og líklega stóðu þeir þess vegna uppi sem sigurvegarar í kvöld.

Hvað gerist næst?
ÍR heldurfá dágott frí en mæta Stjörnunni næst þann 26. febrúar. Þeir halda 7. sætinu. Selfoss fer tímabundið upp í 3. Sæti og  tekur á móti Haukum í næstu umferð.
 
Patrekur: Heildarbragurinn góður
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, gat verið sáttur að leikslokum.

„Við komum vel inn í leikinn, spiluðum 5-1 vörn sem sló ÍR-ingana aðeins út af laginu. Við vorum áræðnir og þetta var góður leikur af okkar hálfu.

Við stjórnuðum leiknum til enda og ég var ánægður að menn héldu út í 60 mínútur og góð tvö stig á móti ÍR, sem hefur verið að spila ágætlega.“

Þrátt fyrir að sóknin hafi skorað 37 mörk í leiknum vildi Patti meina að vörnin hefði verið lykillinn að sigri í dag.

„Nei, ég myndi segja að það væri 5-1 vörnin, því við fengum mikið af hraðaupphlaupum og við náðum að slíta okkur frá þeim. Sölvi var frábær í markinu og sóknarleikurinn var töluvert betri en í bikarleiknum á móti Selfoss.“

Mjög góður leikur hjá Selfoss í dag en þær geta enn bætt sig að sögn Patta.

„Það er alltaf hægt að bæta sig, við áttum góðan leik og fengum tvö stig. Það er alltaf hægt að finna eitthvað en heildarbragurinn á liðinu var góður í dag.“ sagði Patti að lokum.
 
Bjarni: Lélegasta sem ég hef séð
Bjarna Fritzsyni var ekki skemmt að leikslokum eftir að lið hans laut í lægra haldi gegn Selfoss. Hver voru hans fyrstu viðbrögð eftir leik?

„Þau eru ekki góð,“ sagði Bjarni.

„Við bara mættum ekki til leiks í byrjun. Við gáfum þeim færi á okkur með því að vera bara engan veginn klárir varnarlega, gerðum strax mjög slæma feila í sókninni. Gegnum leikinn vorum við bara virkilega lélegir.“

„Í byrjun skutu þeir okkur í kaf og við vorum ekki að spila góða vörn. Við náðum ekki að leysa sóknarleikinn þeirra eins og við vorum búnir að undirbúa. Svo erum við að fara illa með sóknirnar til þess að byrja með. Mér fannst við ekki vera klárir hérna,“ segir Bjarni og bendir á höfuð sitt.

„Við vorum ekki tilbúnir, ekki nógu hungraðir til að sigra þennan leik og vorum ekki tilbúnir að leggja okkur nóg fram og ekki nógu ákveðnir.“

ÍR fékk á sig 37 mörk í kvöld og sagði Bjarni að þetta hefði verið ömurleg frammistaða.

„Þetta er lélegasta frammistaða sem ég hef séð frá mínu liði ever, held ég. Þetta var hræðilegt, algjört hrun.“
Þá fannst honum lokatölurnar gefa mjög góða mynd af leiknum.

„Jájá, Selfoss voru miklu betri en við í dag. Þeir rústuðu okkur og við þurfum að kyngja því. Svona lagað gerist, stundum skíttapar maður og það er betra að eiga einn svona slakan leik en marga þar sem þú tapar naumt. Við þurfum bara að fara yfir leikinn en ég treysti strákunum að þetta hafi bara verið eitthvað „one-off“ andleysi og kjarkleysi.“

„Þetta er ekki nálægt því sem við erum búnir að gera í nánast allan vetur. Þú verður ekki svona mikið lélegri í handbolta á einni viku. Auðvitað eru Selfoss Íslandsmeistarakandídatar fyrir mér, súper flott lið en við hefðum átt að gera töluvert betur í leiknum.“ sagði Bjarni að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.