Erlent

Vilja ekki fresta högg-prófi nýs flugmóðurskips

Samúel Karl Ólason skrifar
Sjóherinn vonast til þess að taka USS Gerald Ford í notkun árið 2022.
Sjóherinn vonast til þess að taka USS Gerald Ford í notkun árið 2022. Vísir/AFP
Leiðtogar hermálanefndar öldungadeildarinnar hafa hvatt James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, til að fresta ekki högg-prófi nýs flugmóðurskips. Sjóherinn vill fresta prófinu um minnst sex ár. Flugmóðurskipið USS Gerald R. Ford er það dýrasta í sögu Bandaríkjanna og smíði þess fór langt fram úr áætlunum. Verið er að smíða tvö önnur slík skip.

Umræddu prófi er ætlað að sýna fram á hvernig skipið myndi þola árás og fela í sér að sprengjur verði sprengdar neðansjávar í kringum skipið. Þannig er hægt að skoða hve vel skipið þolir árásir og hvort breyta þurfi skipinu og öðrum slíkum á nokkurn hátt svo þau séu öruggari.

Sjóherinn vill þó sleppa prófinu og gera það frekar á næsta skipi af sömu gerð, USS John F. Kennedy, sem áætlað er að verði afhent sjóhernum árið 2024.



Þeir John McCain og Jack Reed, sem leiða nefnd öldungadeildarinnar sem fjallar um málefni herafla ríkisins, segja nauðsynlegt að framkvæma prófið, sem upprunalega átti að gera árið 2015, eins fljótt og auðið er.

Þannig sé hægt að bæta hönnun þeirra skipa sem enn eru í smíðum og lækka kostnað við framtíðarbreytingar. Þar að auki er minnst fjögur kerfi í skipinu sem hafa aldrei verið í öðrum skipum sem þingmennirnir segja mikilvægt að prófa.

Þar að auki sé óábyrgt að taka skipið í almenna notkun og jafnvel nota það í hernaði án þess að framkvæmda umrætt próf. Sjóherinn vonast til þess að taka USS Gerald Ford í notkun árið 2022.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×