Handbolti

Þetta þarf að gerast í kvöld til að Kristján komist með Svíana í undanúrslit EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristján Andrésson.
Kristján Andrésson. Vísir/Getty
Kristján Andrésson og lærisveinar hans í sænska handboltalandsliðinu verða í eldlínunni í kvöld þegar fer fram lokaumferð milliriðla EM í handbolta í Króatíu.

Íslenski þjálfarinn á ágæta möguleika á því að koma liði sínu í undanúrslit keppninnar og ætti Ísland þá þjálfara í undanúrslitum EM aðra keppnina í röð en Dagur Sigurðsson gerði Þjóðverja að Evrópumeisturum á EM í Póllandi 2016.

Sænska landsliðið fór með fullt hús inn í milliriðilinn en hefur þar unnið einn leik (29-20 á móti Hvít-Rússum) og tapað einum (17-23 á móti Frökkum).

Svíar eru eins og er í 3. sæti riðilsins með sex stig og geta því ekki bara treyst á sig sjálfa í lokaleiknum. Fyrir ofan þá eru Frakkar (8 stig) og Króatar (6 stig).

Til að Kristján Andrésson fari með sænska liðið í undanúrslitin í kvöld þá þarf bæði sænska liðið að vinna Norðmenn sem og að fá hjálp frá Frökkum.

Frakkar eru efstir í millriðlinum og nægir jafntefli í lokaleik sínum á móti heimamönnum í Króatíu. Króatar þurfa aftur á móti að vinna sinn leik til að komast í undanúrslitin fari svo að Svíar vinni sinn leik.





Frakkland, Króatía og Svíþjóð geta líka öll endað jöfn að stigum (Sænskur sigur og króatískur sigur) og þá ræður röð þeirra úrslitin úr öllum þremur innbyrðisleikjum þeirra.

Svíar unnu Króata með fjórum mörkum en töpuðu fyrir Frökkum með sex mörkum. Króatar þurfa því „aðeins“ að vinna með tveimur mörkum til að setja Svíana fyrir aftan sig í innbyrðisleikjum. Aðeins átta marka tap eða stærra myndi henda Frökkum út.

Leikur Svíþjóðar og Noregs fer fram á undan leik Frakklands og Króatíu og því munu Króatar og allir stuðningsmenn þeirra vita nákvæmlega hvað þarf að gerast í síðasta leik kvöldsins svo að Króatía komist í undanúrslitin. Það ætti að hjálpa heimamönnum en ekki Svíum.

Norðmenn gætu flækt málið enn meira með því að vinna Svía því þá gætu Króatía, Svíþjóð og Noregur öll endað jöfn að stigum. Svíar mættu þá ekki tapa með meira en þremur mörkum á móti Noregi en fjögurra marka norskur sigur myndi þýða að öll þrjú liðin væru nákvæmlega jöfn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×