Skoðun

Neyslustýrandi skattar – áhrifaríkir eða úreltir?

Arnar Kjartansson skrifar
Neyslustýrandi skattar eru þeir skattar sem ætlaðir eru að minnka neyslu almennings á tilteknum vörum. Slíkir skattar eru t.d. sykurskattar (sem hafa verið fjarlægðir á Íslandi), tóbaksskattar og áfengisskattar. Tóbaksskattar á neftóbak eru til að mynda 26,75 kr/gr. sem gera 1337,5 kr. per tóbaksdolla sem er í kringum 3000 kr. að meðaltali. Þetta þýðir að við borgum 44,58% skatt á dolluna, sem er gjörsamlega ósiðlega hár skattur, næstum tvöfaldur virðisaukaskattur.

Stærsta spurningin sem við verðum að spyrja okkur er: Við sem neytendur, eigum við ekki að getað valið hvort við neytum slíkum varning? Er það hlutverk ríkisins að ákveða hvað við setjum ofan í okkur? Þessum spurningum er ætíð svarað með rökunum „Tja, með því að neyta áfengis eða tóbaks ertu í áhættu á sjúkdómum og því rétt að þú greiðir aukalega í heilbrigðiskerfið.“

Þessu er hægt að svara í 4 pörtum. Í fyrsta lagi er þetta bara ekki tilgangur skattanna. Í öðru lagi með búum við við opinbert heilbrigðiskerfi sem gerir ekki ráð fyrir að einstaklingar greiði aukalega fyrir heilbrigðisþjónustu. Í þriðja lagi er þessi skattur ekki eyrnamerktur skattur og fer því ekki beint í að greiða fyrir áhættuna, heldur beint í skattkerfið. Í fjórða lagi ná þessir skattar aðeins tilgangi sínum hjá tekjulægstu hópum samfélagsins.

Ofan á þetta allt saman hafa rannsóknir nýlega leitt í ljós að fræðsla og forvarnir ná mun fremur að lækka neyslu á þessum vörum heldur en neyslustýrandi skattar. Neyslustýrandi skattar eru svar íhaldsstefnunnar við lýðheilsuvanda almennings. Almenningur á rétt á að fá að velja um slíka neyslu, það er réttur okkar sem neytendur að taka slíkar ákvarðanir, innan skynsamlegra marka laganna. Forvarnir og fræðsla eru mun áhrifameira svar við lýðheilsuvandamálum. Með því fær neytandinn þær upplýsingar sem hann þarf til að taka rökrétta ákvörðun varðandi neyslu sína á þeim tilteknu vörum.

Þess vegna skorar höfundur Alþingi til að taka upp þessa umræðu. Leggur hann til að þessir skattar verði lækkaðir til muna og að ákveðin prósenta þeirra verði eyrnamerktir til þess að fjármagna herferð í fræðslu og forvörnum.

Arnar Kjartansson, nemi í miðlun og almannatengslum




Skoðun

Sjá meira


×