Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Þór Þorl. 79-86 | Þór skellti Stjörnunni

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þórsarar unnu verðskuldaðan sigur í kvöld
Þórsarar unnu verðskuldaðan sigur í kvöld Vísir/eyþór
Þór Þorlákshöfn vann gífurlegan sterkan sigur á Stjörnunni, 86-79, en þetta var annar sigur Þorlákshafnarbúa í röð. Þeir sýndu afar sterka og góða frammistöðu í kvöld á meðan Stjarnan var langt frá sínu besta.

Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti og það var ljost að þeirra leik myndi fylgja mikil orka og leikgleði. Bekkurinn var með vel á nótunum og menn virtust samstilltir í átakið, enda fyrsta skipti í lengri, lengri tíma sem þeir höfðu alla sína menn nánast heila. Þeir leiddu 24-16 eftir fyrsta leikhluta.

Gestirnir úr Þorlákshöfn voru að finna afar auðvelda leið að körfu heimamanna sem virtust ekki hafa mikinn áhuga á því að verjast að því er virtist. Gestirnir gengu á lagið og fundu góðar leiðir sóknarlega.

Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn þrettán stig, 50-37, Þórsurum í vil og það var ljóst að það þyrfti mikla hugarfars- og leikbreytingu hjá Stjörnumönnum ætluðu þeir sér að snáu þessum leik við. Auk þess voru þeir að hitta skelfilega, einungis 14 skot af 31 innan vítateigs ofan í.

Stjarnan byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti. Þeir hertu varnarleikinn svo um munaði, byrjuðu að fara meira og betur inn í teiginn þar sem þeir voru með mikla yfirburði í stærð og náðu þannig að saxa niður forystu gestanna. Þegar þriðja leikhluta lauk leiddu Þórsarar með þremur stigum, 63-60!

Þórsarar bitu aftur frá sér í fjórða og síðasta leikhlutanum. Þeir voru að spila algjörlega frábæran varnarleik, baráttan var rosaleg og menn voru tilbúnir að leggja mikið á sig. Þeir voru að frákasta mjög vel miðað við stærðarmun liðanna og leystu þann veikleika, ef veikleika mætti kalla, mjög vel.

Í síðasta leikhlutanum reyndust gestirnir einfaldlega sterkari. Stjarnan reyndi að breyta um varnarafbrigði og að koma sér inn í leikinn á einhvern hátt, en margir leikmenn þeirra voru komnir í villuvandræði svo þeir lentu í örlitlum vandræðum. Lokatölur sjö stiga sigur gestanna, 86-79.

Afhverju vann Þór Þorlákshöfn?

Þeir sýndu afar heilsteypa frammistöðu í kvöld og það var ljóst frá fyrstu mínútu að þeir ætluðu að selja sig dýrt og rúmlega það. Orkumikil frammistaða, góður varnarleikur, stórkostlegur sóknarleikur í fyrri hálfleikur sér í lagi og bara liðsheild skilaði þeim þessum tveimur stigum í kvöld.

Stjarnan náði ekki að nýta sér hæðarmuninn inn í teignum eins og áður segir og það er ljóst að þjálfarateymi Þórs hafði lagt þennan leik gjörsamlega frábærlega upp. Þeir höfðu svör við öllum leik Stjörnunnar á meðan heimamenn áttu slakan dag.

Hverjir stóðu upp úr?

Halldór Garðar Hermannsson átti afbragðs dag fyrir gestina. Hann skoraði 19 stig, var öflugur í fjórða leikhluta og tók einnig sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Ólafur Helgi (11 stig, 9 fráköst) og DJ Balentine (24 stig, 5 fráköst) komu einnig með myndarlegt framlag.

Collin Pryor var í sérflokki hjá heimamönnum. Hann skoraði 23 stig og tók sextán fráköst. Honum næstur var Róbert Sigurðarson með fimmtán stig, en Róbert skoraði flest sín stig í fyrsta leikhluta. Síðan dró af honum. Það vantaði meira framlag frá fleirum Stjörnumegin.

Tölfræðin sem vakti athygli

Á meðan heimamenn skutu 45% tveggja stiga nýtingu í fyrri hálfleik voru gestirnir að hitta 78% og þar er ein aðal ástæðan fyrir muninum sem Þór vann upp í fyrri hálfleik. Á meðan Þór fékk 32 stig frá bekknum sínum fékk Stjarnan einungis 17. Þar munar afar miklu.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer næst í Hertz-hellirinn og mætir þar ÍR í risaleik. Þar eru gífurlega mikilvæg stig í boði fyrir Stjörnuna. Þór Þorlákshöfn mætir á sama tíma Keflavík á heimavelli sínum í Þorlákshöfn og með áframhaldi á þessari spilamennsku fer Þór í úrslitakeppnina. 

Stjarnan-Þór Þ. 79-86 (16-24, 21-26, 23-13, 19-23)

Stjarnan:
Collin Anthony Pryor 23/16 fráköst, Róbert Sigurðsson 15, Tómas Þórður Hilmarsson 14/7 fráköst/6 stoðsendingar, Sherrod Nigel Wright 10, Hlynur Elías Bæringsson 10/10 fráköst, Eysteinn Bjarni Ævarsson 5/5 fráköst, Egill Agnar Októsson 2, Arnþór Freyr Guðmundsson 0, Óskar Þór Þorsteinsson 0, Bjarni Geir Gunnarsson 0, Grímkell Orri Sigurþórsson 0, Dúi Þór Jónsson 0.

Þór Þ.: DJ Balentine II 24/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 19/6 fráköst, Emil Karel Einarsson 12/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 11/9 fráköst/4 varin skot, Chaz Calvaron Williams 8, Davíð Arnar Ágústsson 5, Þorsteinn Már Ragnarsson 3, Óli Ragnar Alexandersson 2/6 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 2, Magnús Breki Þórðason 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 0. 

Einar Árni: Við eigum skilið að falla samkvæmt fólki og það er okkur hvatning

„Þetta var hörkuframmistaða. Ofboðslega dýrmætt sigur og gott framhald af síðasta leik,” sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórsara, glaðbeittur í leikslok.

„Við spiluðum þéttan varnarleik. Við höldum góðu Stjörnuliði í 79 stigum. Ég er ánægður með styrkinn og hjartað sem menn settu í þetta.”

„Stjarnan eru stórir og erfiðir. Hlynur er náttúrlega bara vél, Tómas og Collin eru svo með honum. Þeir taka níu sóknarfráköst í fyrri hálfleik, en höldum þeim í tveimur í síðari hálfleik.”

„Það er mjög jákvætt að ná í svona góðan sigur, en við skutum ekki nema 30% úr þriggja stiga skotum. Samt vorum við að taka mörg góð skot, en virkilega ánægður.”

Þórsarar áttu skínandi góðan fyrri hálfleik, en duttu aðeins niður í þriðja leikhluta. Einhverntímann myndu þeir fá á sig áhlaup frá Stjörnunni og það gerðist, en þeir stóðu það vel af sér.

„Íþróttin er leikur áhlaupa og þetta var kannski óþarflega mikið. Þetta er gömul saga og ný, en við vorum lélegir sóknarlega fyrstu sjö til átta mínúturnar í síðari hálfleik. Á sama tíma var óþarfi að gefa eftir hinu megin. Mér fannst fjórði leikhlutinn svo vera eign okkar allan tímann.”

Þetta er annar risa sigurinn hjá Þór í röð. Þeir unnu gífurlega sterkan sigur á Haukum í síðustu umferð og nú vinna þeir Stjörnuna Í Garðarbæ.

„Við eigum skilið að falla samkvæmt fólki og það er okkur hvatning. Vonandi hafa menn haft gaman af þessu í kvöld,” sagði Einar ákveðinn að lokum.

Hrafn: Sannfærðir um að við getum unnið hvaða lið sem er í þessu húsi 

„Við komum afleitlega inn í þennan leik. Mér finnst við mjög dapurt og leiðinlegt að við höfum boðið upp á þennan fyrri hálfleik,” sagði niðurlútur Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, í leikslok.

„Mér fannst við rétta þeim undirtökin í leiknum á silfurfati,” en Hrafn talaði um fyrir leikinn að þeir þyrftu að fara mikið inn í teiginn og koma stigum þar að. Það gekk illa.

„Við skutum ekki einu víti í fyrri hálfleik svo við getum skotið því föstu að það hafi ekki gengið. Ég held að mestu leyti að það hafi verið útaf því að við fórum of snemma inn og vorum of fyrirsjáanlegir og staðir.”

„Einnig voru aðrir leikmenn á vellinum að koma inn að körfunni í stað þess að búa til nægilega rými til þess að vinna á og því verður þetta mjög erfitt þó að ég hafi þegið einn slátt á hendina í fyrri hálfleik. Við vorum ekki góðir og bjuggum okkur til slæma holu.”

Stjarnan kom með gott áhlaup í þriðja leikhluta og vantaði herslumuninn að taka fram úr Þórsurum, en það gekk ekki. Þórsarar héldu forystunni og gerðu það vel.

„Þetta er flókið að vera með leikmenn á fjórum villum að berja sig inn í svona leik. Við gerum mjög vel í því að koma okkur aftur inn í þetta í þriðja leikhluta og spilum þar frábæran varnarleik.”

„Við erum sannfærðir um að við getum unnið nánast hvaða lið sem er í þessu húsi og við höfum ekki verið að sýna það. Því þurfum við að breyta,” sagði áhyggjufullur Hrafn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira