Körfubolti

Emil tekur við Haukum af Ingvari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emil Barja tekur í spaðann á Kristni Jónassyni, formanni körfuknattleiksdeildar Hauka.
Emil Barja tekur í spaðann á Kristni Jónassyni, formanni körfuknattleiksdeildar Hauka. haukar

Emil Barja hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Hauka í körfubolta. Hann tekur við starfinu af Ingvari Guðjónssyni.

Emil skrifaði undir tveggja ára samning við Hauka sem féllu úr leik fyrir Stjörnunni í oddaleik í átta liða úrslitum Subway deildarinnar á dögunum. Emil var Ingvari til aðstoðar með Haukaliðið seinni hluta tímabilsins, eða eftir að Bjarni Magnússon hætti sem þjálfari liðsins.

Emil lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil. Hann lék allan sinn feril með Haukum ef frá er talið tímabilið 2018-19 sem hann spilaði með KR og varð Íslandsmeistari með liðinu. Emil er leikjahæsti leikmaður í sögu Hauka og var lengi fyrirliði liðsins.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Emil þjálfað yngri flokka Hauka síðan 2007. Auk þess að stýra kvennaliði félagsins og yngri flokkum heldur hann áfram að þjálfa U-16 ára landslið karla.

„Ég er spenntur að takast á við þetta nýja hlutverk. Það var frábær reynsla að koma inn i þjálfarahópinn hjá mfl. kvenna í vetur með Ingvari og Sigrúnu. Stefnan í Haukum er alltaf að vera í efri hlutanum og það verður ekkert öðruvísi undir minni stjórn,“ sagði Emil í frétt á samfélagsmiðlum Hauka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×