Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Haukar 70-73 | Haukar unnu háspennuleik

Magnús Einþór Áskelsson skrifar
Haukarnir fagna.
Haukarnir fagna. vísir/ernir
Haukar unnu Keflavík á TM höllinni í kvöld í æsispennandi leik 70-73 en Hörður Axel Vilhjámsson og Ágúst Orrason fengu góð tækifæri á síðustu andartökum leiksins til að amk koma leiknum í framlengingu fyrr heimamenn.

Haukar byrjuðu leikinn betur og tóku strax frumkvæðið og fóru flest skot niður hjá þeim fyrstu mínúturnar. Keflvíkingar voru þó aldrei langt undan og undir dyggri stjórn Harðar Axel Vilhjálmssonar náðu þeir að jafna í lok leikhlutans 19-19.

Í öðrum leikhluta hélt tóku Haukar völdin og voru alltaf á skrefinu á undan, margir voru að leggja í púkkið og voru þeir við það að slíta Keflvíkinga vel frá sér. Heimamenn neituðu að gefast upp og komu til baka undir lok leikhlutans og minnkuðu muninn í fimm stig þegar frábær Hörður Axel stal boltanum af Kára jónssyni og tróð honum þegar skammt var eftir. Staðan, 32-37 í hálfleik.

Keflvíkingar komu ákveðnir til leiks í þriðja leikhluta og jafnaði títtnefndur Hörður Axel leikinn með fimm fyrstu stigum hans. Keflvíkingar komust fyrsta og eina skiptið yfir í leiknum skömmu síðar 39-38. Þá hrukku Haukar í gang, vörnin þéttist og náðu þeir mest ellefu stiga forystu 41-52. Eins og fyrr í leiknum áttu Keflvíkingar síðan betri endasprett í lokin og náðu muninum niður í sjö stig, 51-58 fyrir loka leikhlutann.

Í fjórða leikhluta virtust Haukar ætla að sigla þessum leik þægilega í höfn og leiddu um miðbik hans með ellefu stigum eftir að Keflvíkingar höfðu komið með áhlaup. En með seiglu og tveimur þristum frá Ragnari Bragasyni komu heimamenn sér enn einu sinni inn í leikinn og í hönd fóru æsilegar lokamínútur. Í stöðunni, 70-72 fengu Keflavík boltann þegar um 27 sekúndur voru eftir, Hörður Axel fær opinn þrist sem hefði getað unnið leikinn en klikkaði. Keflvíkingar brjóta og á línuna fór Hjálmar Stefánsson þegar 1,9 sekúndur eru eftir, Hann hitti ekki úr fyrra skotinu og ætlar augljóslega að klúðra því seinna en á ótrúlegann hátt fór boltinn ofaní körfuna og Keflvíkingar ná leikhléi. Ágúst Orrason fékk svo galopinn þrist eftir innkast til að jafna leikinn fyrir heimamenn en skotið geigaði. Sigur Hauka í höfn eftir ótrúlegar lokamínútur.

Af hverju unnu Haukar?

Varnir liðana voru góðar, Haukar náðu að loka á Dominque Elliot í síðari hálfleik en hann hafði reynst þeim erfiður í þeim fyrri sérstaklega í sóknarfráköstunum en þau voru að halda Keflavík inn í þessum leik. Haukar hittu svo mun betur hér í kvöld og á sama skapi var þriggja stiga nýting heimamanna slæm í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Í jöfnu Haukaliði má taka út Hjálmar Stefánsson sem kom mjög sterkur inn af bekknum í kvöld og skilaði 12 stigum og reif niður 7 fráköst. Paul Antony Jones var einnig traustur en hann skoraði 16 stig og tók 10 fráköst.

Hjá Keflavík var það Hörður Axel Vilhjálmsson sem dróg vagninn með frábærum leik en hann skoraði 28 stig og gaf 6 stoðsendingar. Dominque Ellitot átti líka ágætis leik, þó sér í lagi í fyrri hálfleik en hann skoraði 17 stig og tók 11 fráköst.

Hvað gekk illa?

Skotnýting heimamanna var slæm, 7/33 í þristum sem er alls ekki Keflavík líkt því þeir lifa of þrífast svo oft á þriggja stiga leiknum. Einnig vantaði meira framlag frá fleirum leikmönnum en aðeins fimm leikmenn Keflavíkur skoruðu í leiknum meðan Haukar fengu körfur frá níu leikmönnum.

Tölfræði sem vekur athygli

Keflvíkingar fá sextán fleiri skot en Haukar í leiknum en hittni þeirra var alls ekki góð í kvöld. 35% í tveggja stiga skotum og 21% í þriggja stiga skotum. Einnig vekur það athygli að þetta var sjötti heimaleikurinn í röð sem Keflvíkingar tapa í deild og bikar sem er mjög ólíkt þeim enda þeirra heimavöllur verið vígi í gegnum tíðina.

Hvað næst?

Næstu leikir þessara liða er gríðarlega mikilvægir. Keflavík fer í þorlákshöfn og spilar gegn Þór, en Þórsarar virðast vera komnir í gang og eru aðeins tveimur stigum á eftir Keflavík í níunda sætinu. Haukar fá Tindastól í heimsókn sem er einn af stóru leikjunum í toppbaráttunni

Keflavík-Haukar (19-19, 32-37,51-58,70-73)

Keflavík:
Hörður Axel Vilhjálmsson 28/6 stoðsendingar, Dominiqe Elliot 19/11fráköst, Ragnar Örn Bragason 14, Ágúst Orrason 9, Guðmundur Jónsson 0, Magnús Már Traustason 0, Daði Lár Jónsson 0,Davíð Páll Hermannsson 2, Þröstur Leó Jóhannsson 0,  Andri Sveinsson0, Hilmar Pétursson 0 

Haukar: Paul Anthony Jones 16/10 fráköst, Hjálmar Stefánsson 13, Kristján Leifur Sverrisson 10, Emil Barja 10, Kári Jónsson 10, Haukur Óskarsson 5, Breki Gylfason 5, Finnur Atli Magnússn 3, Arnór Bjarki Ívarsson 2, Alx Rafn Guðlaugsson 0, Sigurður Ægir Brynjólfsson 0.

Friðrik: Höfðum tækifæri að taka þennann leik

Friðrik Ingi Rúnarsson þjáfari Keflavíkur var nokkuð ánægður með leik sinna manna þrátt fyrir tap hér í kvöld, samstaðan betri og leikur liðsins mun betri en í undanförnum leikjum. Keflavík hefði getað tekið þennann leik í lokin en skotnýtingin var þeim að falli í kvöld.

 „Þetta var naumt en miðað við hvernig við höfum verið að spila síðustu vikur var þetta allt annað lið sem mætti hér til leiks í kvöld. Mér fannst vera meiri samstaða í hópnum og vð sýndum nokkrum sinnum í gegnum leikinn þrátt fyrir að missa þá 8,10,11, stig þá náðum við að koma til baka og það er ákveðinn styrkur. Við  getum sagt að við vorum ekki að gera það í síðustu leikjum. Við höfðum tækifæri hér í lokinn til þess að taka þennann leik svo höfðum við tækifæri til þess að jafna hann. Við fengum alveg aragrúa af galopnum skotum og munurinn í þessum liggur einfaldlega í því að þeir hittu en við ekki. Mér fannst að örðu leyti liðin bara mjög áþekk,“ sagði hann.

Að spurður um árangur Keflavíkur á heimavelli en þetta var sjötti heimaleikurinn í röð hjá liðinu sem er ólíkt liðinu, Friðik mundi ekki eftir að þetta hafi gerst áður en talaði um að skortur á sjálfstrausti væri sennilega skýringin sem og þetta væri sálrænt eðlis.

„Ég held bara að þetta hafi ábyggilega aldrei gerst eða allavega mjög langt síðan, en nei nei það er kannski þegar sjálfstraustið hefur ekki verið nógu gott þá er það stundum þannig í fræðunum að þá er eins og menn gíri sig öðruvísi upp í útileikina og við höfum verið að gera mjög vel á útivöllum, bæði unnið nokkur af efstu liðunum og verið nálægt að vinna önnur þannig að þetta er kannski einhvers sálræn eðlis,“ sagði hann

Ívar: Við stóðumst raunina

Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka var ánægður með sigurinn í leikslok. Honum fannst varnarleikurinn og baráttan góð en vantaði að hitta lykilskotum til að skilja Keflvíkinga eftir þegar þeir voru komnir með ágæta forystu.

„Okkur vantaði að klára leikinn, við vorum alltaf að ná þessum tíu stigum allann leikinn en okkur vantaði alltaf þessi lykilskot til þess að skilja Keflvíkinga eftir þannig að það vantaði aðeins upp á að við hittum betur en það má líka kannski segja um Keflavík í þriggja stiga þannig að ég held að það sér jafnt  á komið. Mér fannst vörnin hjá okkur frábær allann leikinn fyrir utan last play hjá Keflavík þá var vörnin ekki góð en heilt yfir þá var varnarleikurinn og baráttan til fyrirmyndar hjá okkur í kvöld. Dómararnir leyfðu mikið báðum megin og mér fannst þeir dæma þetta jafnt og stóðu sig vel ég held að þetta hafi verið hörkuleikur til að horfa,” sagði hann.

Aðspurður hvort að með þessum sigri væru þeir ekki að slíta sig frá liðunum fyrir neðan og stimpla sig inn í toppbaráttuna fannst Ívari þetta hafa verið lykilleikur varðandi þar og benti á að þeir ættu bæði Tindastól og KR eftir heima en auðvitað mundu sennilega öll þessi topplið tapa einhverjum stigum áður en yfir líkur.

„Við vissum að þetta væri lykilleikur fyrir okkur, aðeins að komast frá fimmta og niður úr þannig að þetta var lykilleikur bæði fyrir okkur og Keflavík og við stóðumst raunina fannst mér og auðvitað er þetta toppbarátta við eigum Tindastól næst heima og við eigum eftir KR heima þannig þetta verður bara gríðarlega barátta. Ég held að öll þessi lið eigi eftir að tapa leikjum fyrir liðum fyrir neðan sig,” sagði hann.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira