Innlent

Hlaut skurði þegar hann bjargaði fjölskyldu sinni út um glugga í eldsvoðanum í Mosfellsbæ

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hús fjölskyldunnar brann til grunna aðfaranótt þriðjudags.
Hús fjölskyldunnar brann til grunna aðfaranótt þriðjudags. Vísir/Ernir
„Þau eru komin með skammtímahúsnæði og mér skilst að það sé eitthvað að leysast málið varðandi framtíðarhúsnæði fyrir þau líka. Það er komin einhver vonarglæta,“ segir Jóna Sigurbjörg Guðmundsdóttir vinkona fjölskyldunnar sem missti aleiguna í bruna í Mosfellsbæ aðfaranótt þriðjudags.

Jóna Sigurbjörg hefur ásamt þeim Kamilu  Zavadzka og Nönnu Vilhelmsdóttur safnað fyrir fjölskylduna síðustu daga og hefur söfnunin gengið vonum framar.

„Það gekk hægar að safna fötum á karlmennina en það er komið núna. Það eru eiginlega öll húsgögn komin, það kemur eiginlega ekki í ljós fyrr en þau eru komin í húsnæðið,“ segir Jóna Sigurbjörg í samtali við Vísi.

Síminn ekki stoppað

Verktakafyrirtæki í Mosfellsbæ hefur tímabundið skotið skjólshúsi yfir fjölskylduna en timburhús hennar, Reykjabraut í Mosfellsbæ, brann til kaldra kola. Þau hafa verið síðustu nætur á gistiheimili. Margir hafa sent skilaboð eða hringt og viljað gefa húsgögn og húsbúnað í söfnunina og ætla Jóna Sigurbjörg, Nanna og Kamila að fara yfir þetta með fjölskyldunni þegar þau eru flutt inn í tímabundna húsnæðið. Þá verður hægt að sjá betur hvort eitthvað vanti til viðbótar.

„Síminn hefur ekki stoppað hjá mér síðustu daga,“ segir Jóna Sigurbjörg og er eiginlega bara orðlaus yfir viðbrögðunum. Fjölskyldan er gríðarlega þakklát fyrir samhuginn og aðstoðina sem þau hafa fengið.

„Þau eru bara klökk. Þetta er fjölskylda sem er búin að vera í gríðarlega erfiðum aðstæðum í mörg ár, bruninn er bara toppurinn á ísjakanum. Húsið sem þau voru í var eiginlega bara orðið ónýtt, það er sorglegt að húsið þeirra þurfti að brenna til að þau fengju einhverja hjálp. Það er alveg hræðilegt og þau eru ekki eina fólkið á Íslandi sem er í þessum aðstæðum.“

Eins og sjá má er húsið í Mosfellsbæ rústir einar.vísir/ernir
Eldsupptök ókunn

Jóna Sigurbjörg segir að nágrannar hafi hringt á slökkviliðið en þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var fjölskyldan komin út og húsið alveg alelda en það brann alveg til grunna. Eftir voru aðeins rústir einar. Eldsupptök eru enn ókunn en Jóna Sigurbjörg segir að slökkviliðið telji að hugsanlega hafi kviknað hafi í út frá rafmagninu í húsinu. „Það eru víst engar líkur á því að þetta hafi verið íkveikja.“

Kristján Ólafur Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði í samtali við Vísi á miðvikudag að á þeirri stundu væri ekkert bendi til þess að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.

Lárus Petersen, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi á þriðjudag að líklega verði erfitt að komast að eldsupptökum þar sem húsið sé einfaldlega horfið. Slökkviliðið fékk útkallið rétt fyrir þrjú um nótt.

„Þau sleppa naumlega út því þau heyra í reykskynjaranum. Þau heyra píp frammi og þá er þar allt alelda svo þau ná að brjóta sér leið út um gluggann,“ sagði Lárus eftir brunann.



Mátti litlu muna


Fjölskyldan komst út áður en timburhúsið varð alelda en það mátti litlu muna. Þegar eldurinn kom upp aðfaranótt þriðjudags voru hjónin á heimilinu með börnin sín tvö, fjögurra og sex ára, ásamt tvítugum syni mannsins frá fyrra hjónabandi.

„Þetta var alveg hræðilegt. Sonur hans kemst út um útidyrnar en hin fjögur voru föst inni í svefnherbergi í dálítinn tíma. Það var bara tæpt að þau kæmust út. Hún náði á endanum að brjóta rúðuna í svefnherberginu. Sonur hans var allur skorinn því að hann bókstaflega reif glerið úr glugganum til að þau kæmust út,“ segir Jóna Sigurbjörg. „Allt sem þau áttu brann.“

Hún segir mikið mildi að ekki fór verr en fjölskyldan var flutt á slysadeild Landspítalans með reykeitrun og minniháttar meiðsl.

„Fjögurra ára sonur þeirra fékk martröð stuttu áður en þetta gerist þannig að fyrir náð Guðs þá voru þau búin að rumska og voru hálf vakandi þegar þetta gerist, annars hefðu þau bara ekki komist út. Þetta var alveg hryllilegt.“



Jóna Sigurbjörg bendir á að stofnaður hefur verið söfnunarreikningur fyrir fjölskylduna og er hún sjálf skráð fyrir honum. Reikningsnúmerið er 0528-14-405694 og kennitalan 300977-2949.



Tengdar fréttir

Ekki grunur um neitt saknæmt í eldsvoðunum í nótt

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn á eldsvoðunum tveimur sem kviknuðu í nótt, annars vegar í Bláhömrum 2 í Grafarvogi og hins vegar á Reykjabraut í Mosfellsbæ.

Fjölskylda úr eldsvoða í húsaskjól hjá verktaka

Verktakafyrirtæki í Mosfellsbæ lánar fjölskyldunni sem missti allt sitt í bruna í Mosfellsbæ hús til að búa í næstu mánuði. Stefnir að því að flytja inn í dag. Söfnun fyrir fjölskylduna gengur vel. Enn vantar þó húsbúnað og húsbúnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×