Erlent

Hamfaragos gæti orðið á Filippseyjum á næstu dögum eða vikum

Kjartan Kjartansson skrifar
Bjarmi af hrauni sem vellur upp úr tindi Mayon sást í gær.
Bjarmi af hrauni sem vellur upp úr tindi Mayon sást í gær. Vísir/AFP
Jarðfræðingar á Filippseyjum vara við því að hamfaragos geti orðið í virkasta eldfjalli eyjanna á næstu dögum eða vikum. Mayon-eldfjallið hefur spúið ösku og grjóti undanfarna daga og hafa um níu þúsund íbúar nærliggjandi þorpa flúið heimili sín.

Reuters-fréttastofan segir að merki séu um að hraun sé byrjað að vella upp úr eldfjallinu sem er vinsæll ferðamannastaður í Albay-héraði. Viðvörunarstigi sem lýst var yfir hefur verið hækkað. Fólki hefur verið ráðlagt að halda sig í að minnsta kosti sex kílómetra fjarlægð frá eldfjallinu.

Mayon er virkasta eldfjall Filippseyja en það hefur gosið fimmtíu sinnum á síðustu fimm hundruð árunum, að því er segir í frétt AP-fréttastofunnar. Um það bil tólf hundruð manns fórust þegar hraun flæddi yfir þorp í gosi þar í febrúar árið 1841. Þúsundir manna þurftu að flýja þegar Mayon gaus síðast árið 2014.

Yfirmaður Jarðvísindastofnunar Filippseyja segir að virknin í Mayon nú bendi til þess að hraungos sé í uppsiglingu. Hann vill þó ekki útiloka hættulegra sprengigos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×