Viðskipti innlent

Forstjóri FME á leið í fjögurra mánaða námsleyfi

Hörður Ægisson skrifar
Unnur mun sækja námskeið við Evrópuháskólann í Flórens og viðskiptaháskólann IESE í Barselóna.
Unnur mun sækja námskeið við Evrópuháskólann í Flórens og viðskiptaháskólann IESE í Barselóna. Vísir/Anton
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), fer í tæplega fjögurra mánaða námsleyfi frá störfum í seinni hluta næsta mánaðar. Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri FME, verður starfandi forstjóri eftirlitsins þangað til Unnur snýr aftur til starfa.

Unnur staðfestir þetta í samtali við Markaðinn en hún verður í námsleyfi frá 20. febrúar næstkomandi fram í miðjan júní á þessu ári. Hún segist í fyrstu ætla að dvelja í Flórens á Ítalíu og sækja námskeið, sem eru meðal annars kennd í samstarfi við Evrópska bankaeftirlitið, við banka- og fjármáladeild (e. School of Banking and Finance) Evrópuháskólans í Flórens. Síðari hluta námsleyfisins verður Unnur hins vegar í námi við viðskiptaháskólann IESE í Barselóna þar sem hún mun taka námskeið á sviði stjórnunar.

Unnur, sem er lögfræðingur að mennt, hefur verið forstjóri Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2012 en þar áður hafði hún verið yfirlögfræðingur FME. Auk þess hefur hún starfað hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands og sem sérfræðingur í fjármálaþjónustu hjá EFTA-skriftstofunni í Brussel.

Fréttin birtst fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 







Fleiri fréttir

Sjá meira


×