Viðskipti innlent

Hækka verðmat á Icelandair Group um fimmtung

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hlutabréf í Icelandair Group snarhækkuðu um 4,6 prósent í verði í gær.
Hlutabréf í Icelandair Group snarhækkuðu um 4,6 prósent í verði í gær. Vísir/Vilhelm
Hagfræðideild Landsbankans hefur hækkað verðmat sitt á Icelandair Group um 22 prósent og metur gengi bréfanna á 18,4 krónur á hlut. Það er um 16 prósentum hærra en markaðsgengi bréfanna eftir lokun markaða í gær. Er fjárfestum þannig ráðlagt að kaupa hlutabréf í félaginu.

Í verðmatinu benda greinendur bankans meðal annars á að vísbendingar séu um að tekjur á hvern sætiskílómetra muni ekki dragast enn frekar saman og að vöxtur félagsins muni leiða til bættrar rekstrarniðurstöðu. Tekið er fram að hækkandi olíuverð hafi vissulega neikvæð áhrif á afkomu Icelandair en hins vegar séu margir keppinautar félagsins berskjaldaðri fyrir olíuverðshækkunum.

Hagfræðideildin spáir því að EBITDA – rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta – verði 189,4 milljónir dala á þessu ári. Til samanburðar var EBITDA ársins 2016 tæpar 220 milljónir dala og þá gera sérfræðingar bankans ráð fyrir að EBITDA Icelandair hafi verið 168 milljónir dala á síðasta ári.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×