Viðskipti innlent

Markaðsmisnotkun í Glitni: Segir stjórn bankans hafa samþykkt lánveitingarnar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis.
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis. Vísir/Anton
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis og einn ákærðu í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, sagði fyrir dómi í morgun að frágangur lánveitinga til fjórtán einkahlutafélaga í eigu jafnmargra starfsmanna glitnis hafi ekki verið til fyrirmyndar.

Lánin voru veitt í maí 2008 og voru upp á samtals rúma 6,8 milljarða króna en voru þau til þess að kaupa hlutabréf í Glitni sem bankinn átti sjálfur, alls 2,64% af heildarhlutafé Glitnis á þeim tíma. Lárus er ákærður í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis fyrir markaðsmisnotkun annars vegar vegna eigin viðskipta bankans og hins vegar umboðssvik vegna lánveitinganna.

„Ég sé það núna að við hefðum átt að bóka þetta betur en ég er fullviss um að þetta hafi ekki gerst nema í fullu samráði við stjórn, “ sagði Lárus fyrir dómi í morgun.

Hann segist hafa verið með töluvert stóra heimild samkvæmt starfsreglum bankans til að framkvæma lánin. Það sé hans skilningur að öllum í stjórn bankans hafi verið ljóst hvað um var að gera.

Liður í skipulagsbreytingum

Aðdraganda lánveitinganna segir Lárus að megi rekja til tölvupóstsamskipta þann 14. mars 2008 þar sem meðlimir í framkvæmdastjórn bankans lýstu yfir þungum áhyggjum af stöðu bankans. Hann hafi þá verið í Frakklandi á leið í frí en snúið aftur til Íslands. Gripið hafi verið til aðgerða til að bæta stöðu bankans, meðal annars með umtalsverðum uppsögnum og breytingum á framkvæmdastjórn bankans.

Hann segir lánveitingarnar hafa verið ætlað að vera hvatakerfi til starfsmanna bankans þegar fyrsta þurfti bónusa og kauprétti starfsmanna árið 2008. Bankinn hafi verið með mikla kaupréttarsamninga en þeir hafi verið orðnir verðlausir.

Hann gat ekki svarað fyrir hver hefði stungið upp á því að lánveitingarnar yrðu veittar í gegnum einkahlutafélög starfsmanna, en hann hafi undirritað lánabeiðnirnar ásamt Þorsteini Má Baldvinssyni, þáverandi stjórnarformanni bankans.

Lárus sagði jafnframt að ósanngjarnt væri að líta á málið sem um hefðbundnar lánveitingar væri að ræða. Um hafi verið að ræða hvatakerfi. Hann hafi aldrei á neinum tímapunkti reynt að útskýra málið sem hefðbundin lán.

Ljóst að stjórn bankans var samþykk

Lánin sem um ræðir eru dagsett 6. maí en þann dag fundaði stjórn bankans einnig. Aðspurður hvernig það kom til að Þorsteinn skrifaði undir lánin ásamt Lárusi segist hann ekki muna hvers vegna það var gert.

„En ég man klárlega að þetta var óvenjulegt mál og ég vildi hafa undirskrift hans með í þessu máli.“

Hann hafi talið að með undirskrift Þorsteins væri skýrt að stjórn bankans væri samþykk lánveitingunum. Hann geti þó tekið undir að málið hafi ekki verið nægilega vel fært til bókar.

„Eftir að hafa skoðað gögn í tengslum við þetta mál viðurkenni ég að frágangur þess var ekki til fyrirmyndar,” sagði Lárus. Hann sagði það ekki breyta því að ákvörðunin var tekin í samráði við stjórnarformann bankans.

„Eins og ég segi, hversu líklegt er að við Þorsteinn höfum verið að ganga frá þessu án undangenginna viðræðna við stjórn?”

Lárus er einn þeirra ákærðu sem ákærður í öllum þremur ákæruliðum. Honum er eins og áður hefur komið fram gefin að sök markaðsmisnotkun og umboðssvik. Er honum gefið að sök að hafa ranglega látið það líta svo út að 14 félög í eigu jafn margra starfsmanna Glitnis hefðu í maí 2008 lagt fé til kaupa á tæplega 400 milljón hlutum í bankanum, sem bankinn seldi þeim og borið af þeim fulla markaðsáhættu þegar kaup félaganna voru í raun fjármögnuð að fullu með lánveitingum frá bankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×