Erlent

Kínverskir mafíósar handteknir á Ítalíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumaður virðir fyrir sér varning sem hald var lagt á í aðgerðunum í morgun.
Lögreglumaður virðir fyrir sér varning sem hald var lagt á í aðgerðunum í morgun. Vísir/EPA
Ítalska lögreglan handtók 33 einstaklinga sem grunaðir eru um að tilheyra kínversku mafíunni í víðtækum aðgerðum í morgun. Fólkið er sakað um að stjórna flæði kínversks varnings um Evrópu og vara sem Kínverjar framleiða á Ítalíu.

Hópurinn er sagður hafa starfað í borginni Prato í Toskana-héraði en einnig teygt anga sína til Rómar, Flórens, Mílanó, Padua og Pisa, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Starfsemin náði einnig til Frakklands og Spánar.

Talið er að fólk hafi tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Auk þeirra sem voru handteknir í aðgerðunum í dag er 21 til viðbótar til rannsóknar vegna málsins. Hópurinn er einnig grunaður um aðra glæpi eins og vændi og fíkniefnasmygl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×