Erlent

Facebook forgangsraðar í þágu áreiðanlegra fréttamiðla

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, leitar á náðir notenda sinna til að dæma um áreiðanleika fréttamiðla.
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, leitar á náðir notenda sinna til að dæma um áreiðanleika fréttamiðla. Vísir/Getty
Í síðustu viku tilkynntu forsvarsmenn samskiptamiðilsins Facebook um ýmsar breytingar sem eru í farvatninu hjá fyrirtækinu. Sagt var frá því að aukin áhersla verði lögð á stöðuuppfærslur frá vinum og fjölskyldum notenda á kostnað færslna frá fyrirtækjum og fréttamiðlum. 

Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, sagði í stöðuuppfærslu í kvöld að gert sé ráð fyrir því að færslur frá fréttamiðlum verði ekki fyrirferðameiri en um fjögur prósent af fréttaveitu notenda.

Zuckerberg segir að út frá fréttum skapist alltaf umræða um mikilvæg málefni og því sé mikilvægt að fréttirnar séu faglegar og sannleikanum samkvæmar.

„Það er of mikið um æsifréttamennsku, villandi upplýsingar og klofning andstæðra sjónarmiða í heiminum í dag. Samskiptamiðlar gera fólki kleift að dreifa upplýsingum hraðar en nokkru sinni fyrr og ef við tökumst ekki á við þessi vandamál munum við óhjákvæmilega magna þau upp. Þess vegna er það mikilvægt að fréttaveitan lyfti gæðafréttum sem stuðla að sameiginlegum grunni,“ segir Zuckerberg.

Leitað verður til notendanna sjálfra til þess að dæma um áreiðanleika fréttamiðla. Facebook ætlar notendum sínum að gefa fréttamiðlum einkunn byggða á trausti. 

Það er von Zuckerbergs að með breytingunum aukist gæði þess tíma sem notendur verja á samskiptamiðlinum. 

Hér að neðan er hægt að lesa stöðuuppfærslu forstjórans í heild sinni.


Tengdar fréttir

Vilja gera Facebook persónulegt á ný

Auglýsingar og kostað efni munu spila talsvert minna hlutverk á Facebook á næstunni. Nýjum breytingum er ætlað að gera miðilinn persónulegri og sporna við brotthvarfi notenda. Sérfræðingur óttast ekki áhrifin á auglýsendur, enda sé markaðssetning á samfélagsmiðlum í stöðugri þróun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×