Viðskipti innlent

Bíða eftir niðurstöðu dómstóls í lögbannsmáli

Baldur Guðmundsson skrifar
Aðalheiður segir það hafa kostað fyrirtækið um 10 milljónir króna að fá umbeðnar upplýsingar.
Aðalheiður segir það hafa kostað fyrirtækið um 10 milljónir króna að fá umbeðnar upplýsingar. vísir/valli
Þess er nú beðið að héraðsdómur taki afstöðu til ákvörðunar sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að synja lögbannsbeiðni vegna afhendingu Isavia á gögnum  sem varða forval um leigu á aðstöðu fyrir veitingarekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar árið 2014.

Kaffihúsið Kaffitár fékk ekki aðstöðu í flugstöðinni í forvalinu en forsvarsmenn fyrirtækisins hafa í hálft fjórða ár reynt að fá aðgang að forvalsgögnunum. Lagardére Travel Retail fékk rými í flugstöðinni en hafa ekki viljað afhenda gögn, sem Isavia og Lagardrére líta á sem viðkvæmar upplýsingar með tilliti til samkeppnissjónarmiða.

Kaffitár telur að ranglega hafi verið staðið að forvalinu og að Isavia, sem rekur flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, hafi skapað sér skaðabótaskyldu vegna þess. Farið var fram á lögbannið um miðjan desember en sýslumaður tók afstöðu fyrir jól.

Aðalheiður Héðinsdóttir, eigandi og stjórnarformaður Kaffitárs, segir að lögfræðikostnaður vegna þeirrar viðleitni fyrirtækisins að fá gögnin afhent frá Isavia, nálgist tíu milljónir króna.



Uppfært: Fyrirsögnin fréttarinnar var í upphafi á þá leið að málið væri hjá sýslumanni en samkvæmt upplýsingum hefur niðurstaða sýslumanns verið kærð til dómstóls. Fyrirsögninni hefur því verið breytt. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×