Viðskipti innlent

Tomato rukkar nú hærra þjónustugjald í hraðbönkum en stóru bankarnir þrír

Atli Ísleifsson skrifar
Íslandsbanki og Arion banki rukka að lágmarki 175 krónur þegar viðskiptavinir annarra banka taka út peninga í hraðbönkum. Landsbankinn rukkar 150 króna lágmarksgjald.
Íslandsbanki og Arion banki rukka að lágmarki 175 krónur þegar viðskiptavinir annarra banka taka út peninga í hraðbönkum. Landsbankinn rukkar 150 króna lágmarksgjald. Vísir/anton
Innlendir debet- og kreditkortshafar eru nú rukkaðir um 185 króna þjónustugjald þegar þeir taka pening út úr hraðbönkum Tomato. Arnþór Halldórsson, framkvæmdastjóri Tomato, segir að gjaldtakan hafi byrjað um áramótin og að gjaldið sé ætlað til að standa straum af áframhaldandi vexti fyrirtækisins og aukinni þjónustu við Íslendinga.

Tomato byrjaði á haustdögum 2016 að koma upp hraðbönkum víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Ekki var innheimt úttektargjald á innlend kort, sama hvaða banki gaf kortin út. Þjónustugjald var þó rukkað fyrir úttektir með erlend greiðslukort.

Íslandsbanki og Arion banki rukka að lágmarki 175 krónur þegar viðskiptavinir annarra banka taka út peninga í hraðbönkum. Landsbankinn rukkar 150 króna lágmarksgjald. Gjaldið hefur hækkað hjá öllum þremur bönkunum undanfarin ár.

Vilja inn á svæði sem bankarnir hafa vanrækt

Arnþór segir það ljóst að það kosti að reka hraðbanka og að ráðist sé í þessa breytingu til að gera fyrirtækinu kleift að auka þjónustu sína.

„Við viljum fara víðar til að fylla það skarð sem að bankarnir hafa skilið eftir sig með því að minnka sína þjónustu. Þetta mun gera okkur kleift að fara á staði sem ekki eru þjónustaðir í dag,“ segir Arnþór.

Nefnir hann sérstaklega ný hverfi eins og Ögurhvarf, sem hafi verið hraðbankalaust lengi, og Grafarholt sem sé með einn hraðbanka sem þjóni um 20 þúsund manna hverfi.

„Niðurstaðan eftir að hafa rekið þetta í rúmt ár án þess að innheimta þjónustugjöld er sú að afkoman hefur ekki verið á þann veg að við getum haldið áfram að þjónusta Íslendinga eins og þörfin segir til um. Það er stöðugt verið að skora á okkur, á Facebook-síðu okkar og í síma, að koma í þessi úthverfi, setja þar upp hraðbanka og þjónusta Íslendinga. Þetta er það sem við þurfum að gera til að gera okkur kleift að sinna þeirri eftirspurn,“ segir Arnþór.

Í takt við þjónustugjald bankanna

Nýja þjónustugjaldið er 185 krónur sem Arnþór segir að sé í takti við þjónustugjöld bankanna. Þjónustugjaldið fyrir úttektir með erlend kort sé óbreytt – byrji í 180 krónum en hækki með hærri úttektum.

Tomato er nú með sautján hraðbanka í rekstri á höfuðborgarsvæðinu og segir Arnþór að þeir verði orðnir tuttugu með vorinu. „Við erum að byggja upp fyrirtækið svo að það geti aukið þjónustu og komist á þann stað að vera verðugur keppinautur bankanna,“ segir Arnþór.

Framkvæmdastjórinn segir að það sem af er ári hafi fyrirtækinu ekki borist ein einasta kvörtun vegna breytinganna og kveðst hann fullviss um að Íslendingar sjái að þetta gjald sé hófstillt og í takti við það sem þeir séu vanir að sjá.

„Ég fæ ekki annað séð en að mikill meirihluti viðskiptavina okkar séu sáttir.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×