Viðskipti innlent

Minna flutt inn af flugeldum í takt við minni hagvöxt

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Innflutningur á flugeldum dróst nokkuð saman á síðasta ári.
Innflutningur á flugeldum dróst nokkuð saman á síðasta ári. Vísir/Vilhelm
578 tonn af flugeldum voru flutt til landsins á síðasta ári og er það heldur minna en árið áður, 2016, þegar 662 tonn voru flutt inn. Er það í takt við minni vöxt hagkerfisins á milli ára, að því er fram kom í kynningu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á hádegisfundi samtakanna með fjölmiðlum í dag.

Halldór Benjamín fjallaði meðal annars um hina svonefndu „flugeldavísitölu“ sem sýnir fram á fylgni á milli hagvaxtar og innflutnings skotelda. Samtök atvinnulífsins hafa bent á að sprengigleði landsmanna - vilji þeirra til þess að eyða háum fjárhæðum í stundargleði - hafi mikla fylgni við almenna efnahagsþróun. Því meiri hagvöxtur, því meiri sprengingar.

 

Heimild: Samtök atvinnulífsins
Met var slegið í innflutningi á flugeldum á góðærisárinu 2007 þegar um 1.090 tonn voru flutt til landsins. Innflutningur á síðasta ári nam aðeins ríflega helmingi af því sem flutt var inn árið 2007. Innflutningurinn dróst verulega saman í kjölfar falls fjármálakerfisins haustið 2008 en jókst á nýjan leik árið 2009 um leið og hagvöxtur tók við sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×