Viðskipti innlent

Mestur tími Samkeppniseftirlitsins fer í samgöngur og ferðamál

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. vísir/anton brink
Samkeppniseftirlitið varði í fyrra hátt í 35 prósentum af ráðstöfunartíma sínum í málefni sem tengjast samgöngu- og ferðamörkuðum. Engir aðrir markaðir hlutu eins mikla athygli starfsfólks eftirlitsins. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Samkeppniseftirlitsins til Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.

Starfsmenn eftirlitsins, sem voru 24 talsins í lok síðasta árs, vörðu um 25 prósentum af tíma sínum í að skoða málefni sem tengjast umræddu mörkuðunum tveimur árin 2014 og 2015 en hlutfallið hækkaði hins vegar í tæplega 35 prósent í fyrra.

Þá fóru hátt í 20 prósent af tíma starfsfólksins á síðasta ári í mál sem varða matvörumarkaðinn, en það er svipað hlutfall og undanfarin ár. Þegar kemur að málefnum sem tengjast fjármálaþjónustu nam hlutfallið tæplega 10 prósentum. Aðrir markaðir, svo sem olíu- og fjarskiptamarkaðirnir, fengu minni athygli.

Í skýrslunni er auk þess bent á að starfsfólk Samkeppniseftirlitsins verji stórum hluta vinnutímans, eða ríflega 25 prósentum, í að skoða mál sem tengjast misnotkun á markaðsráðandi stöðu fyrirtækja. Ástæðan sé fyrst og fremst smæð hagkerfisins og að fákeppni ríki á mörgum mörkuðum. Mestur tími fer þó í athuganir á ólögmætu samráði.

Málum sem koma til kasta Samkeppniseftirlitsins hefur fækkað verulega á síðustu árum. Í nóvembermánuði voru aðeins 59 mál á borði eftirlitsins en þau voru 129 talsins í byrjun árs 2016, að því er fram kemur í skýrslunni.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×