Viðskipti innlent

Pitsurisi greiðir Birgi Bieltvedt 62 milljónir á ári fyrir ráðgjöf

Haraldur Guðmundsson skrifar
Domino's í Bretlandi á nú 95 prósent í rekstrinum hér á landi en hér eru 22 pitsustaðir.
Domino's í Bretlandi á nú 95 prósent í rekstrinum hér á landi en hér eru 22 pitsustaðir. vísir/eyþór
Fjárfestingafélagið B2B, í eigu Birgis Þórs Bieltvedt, mun fá greitt árlega um 500 þúsund evrur, jafnvirði 62 milljóna króna, fyrir ráðgjafarstörf fyrir Domino’s í Bretlandi (Domino’s Pizza Group, DPG). Birgir mun samkvæmt nýju samkomulagi veita DPG ráðgjöf varðandi rekstur og frekari uppbyggingu pitsukeðjunnar hér á landi út maí 2024, tveimur árum skemur í Noregi og Svíþjóð, og fyrirhugaða útrás til Finnlands og Eystrasaltsríkjanna.

Þetta kemur fram í nýrri hluthafakynningu DPG, sem er skráð í bresku kauphöllinni, en það keypti í síðustu viku 44,3 prósent til viðbótar í íslenska einkahlutafélaginu Pizza Pizza, eiganda og sérleyfishafa Domino’s á Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Samkvæmt henni telur stjórn DPG mikilvægt að Birgir komi áfram að uppbyggingu vörumerkisins í ljósi reynslu hans og tengsla við sérleyfishafann á heimsvísu, Domino’s Pizza International Franchising (DPIF). Því hafi félagið samið við Birgi þann 14. desember síðastliðinn um að hann haldi áfram ráðgjafarstörfum og vinni í samstarfi við DPG að því að tryggja sérleyfissamning fyrir Finnland og Eystrasaltsríkin fyrir júní 2021.

Fari svo að Birgir landi þeim samningi við DPIF verða tvö ný dótturfélög stofnuð utan um útrásina. DPG mun eiga 90 prósenta hlut en Birgir eða félag á hans vegum hin tíu prósentin. Fjárfestirinn mun þá fá greiddar 500 þúsund evrur í ráðgjafarþóknun sem geta einungis farið upp í kaup hans á hlutafénu í dótturfélögunum tveimur. Þá mun Birgir einnig eiga kauprétt á fimm prósentum til viðbótar í báðum félögunum.

Kynningin inniheldur einnig upplýsingar um rekstur Domino’s á Íslandi á fyrri helmingi þessa árs. Tekjur félagsins námu þá 2,7 milljörðum króna samanborið við 2,4 milljarða á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður (EBITDA) batnaði um fjórðung milli ára og nam 382 milljónum. Þá var hagnaður félagsins eftir skatta tæplega 300 milljónir og jókst um 38 prósent en pitsustöðum keðjunnar fjölgaði milli áranna úr 19 í 22. Þá er bent á að veltan jókst um 260 prósent milli 2010 og 2016. Domino’s á Íslandi státi þar að auki af mestri sölu per fermetra (e. sales density) af öllum þeim löndum þar sem pitsur Domino’s séu bakaðar, en þau eru alls 91.

Birgir Þór Bieltvedt steig niður úr stóli stjórnarformanns Domino´s á Íslandi fyrr á árinu.
Samkvæmt fréttatilkynningu síðasta fimmtudag um kaup DPG á 44,3 prósenta hlut í Pizza Pizza greiðir fyrirtækið jafnvirði 3,7 milljarða króna fyrir bréfin. Breska félagið á nú 95,3 prósenta hlut en það keypti upphaflega 49 prósent haustið 2016, á 4,2 milljarða króna á þáverandi gengi. Bætti það svo við öðrum tveimur prósentum í mars síðastliðnum og greiddi 180 milljónir fyrir hlutinn. Birgir steig þá niður úr stóli stjórnarformanns og með nýjustu sölunni hverfur fjárfestingarfélagið Eyja, í eigu Birgis og eiginkonu hans, Eyglóar Kjartansdóttur, út úr hluthafahópnum ásamt Högna Sigurðssyni.

Aðalfundur DPG verður haldinn 11. janúar og kaupsamningurinn, og þar af leiðandi nýi ráðgjafarsamningurinn við Birgi, verður þá borinn undir hluthafa breska félagsins. Það á einnig rekstur keðjunnar í Bretlandi, 17 pitsustaði í Sviss og þriðjungshlut í þýskum sérleyfishafa Domino’s.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×