Viðskipti innlent

Eyjólfur Magnús nýr forstjóri Advania Data Centers

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Eyjólfur Magnús Kristinsson leiðir sókn Advania Data Centers.
Eyjólfur Magnús Kristinsson leiðir sókn Advania Data Centers. advania
Eyjólfur Magnús Kristinsson er nýr forstjóri Advania Data Centers og mun stýra áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Advania.

Hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra rekstrarlausnasviðs Advania frá árinu 2010 og samhliða því leitt starfsemi gagnaveranna frá 2011.

„Í ljósi mikils vaxtar Advania Data Centers snýr Eyjólfur Magnús sér nú alfarið að rekstri þeirra. Sigurður Sæberg Þorsteinsson hefur tekið til starfa sem framkvæmdastjóri rekstrarlausnasviðs Advania,“ segir í tilkynningunni.

Í gagnaverunum er hægt að fá aðgengi að tölvuafli til lengri eða skemmri tíma og sérfræðiþjónustu við ofurtölvur (High Performance Computing).

Ofurtölvur Advania Data Centers búa yfir gríðarlegu afli og leysa flókin tölfræðileg úrlausnarefni. Ýmsar atvinnugreinar sækjast í auknu mæli eftir að gera sína útreikninga í gagnaverunum, svo sem bílaframleiðendur, veðurstofur og tryggingafélög. Ofurtölvur Advania Data Centers hafa meðal annars verið notaðar í byltingakenndum læknisfræðirannsóknum í samstarfi við læknadeild Stanford háskóla. Sérfræðingar gagnaveranna aðstoða hugbúnaðar- og vélbúnaðarframleiðendur, og rannsóknarteymi við framkvæmd verkefnanna.

Eyjólfur telur Advania Data Centers veita framúrskarandi sérfræðiþjónustu.

„Þrátt fyrir að kjarnastarfsemi fyrirtækisins felist í rekstri gagnavera, þá lítum við á okkur sem tæknifyrirtæki sem býður framúrskarandi sérfræðiþjónustu. Um 35 starfsmenn starfa hjá Advania Data Centers í dag og ég býst við að þeir verði orðnir 50 á næsta ári,” segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×