Golf

Guðrún Brá náði ekki í gegn á Evrópumótaröðina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir. mynd/gsí

Kylfingurinn Guðrún Brá Björgvinsdóttir náði ekki að tryggja sér sæti á Evrópumótaröðinni í golfi í dag er hún lauk leik á lokaúrtökumótinu í Marokkó.

Aðeins 25 efstu kylfingar mótsins vinna sér inn þátttökurétt á Evrópumótaröðinni og var okkar kona nokkuð fjarri þeim hópi. Hún var í 51. sæti fyrir lokadaginn og því vitað mál að það yrði á brattann að sækja. Hún endaði í 53.-56. sæti.

Hún lék á 73 höggum í dag eða á einu höggi yfir pari. Sautjánda holan fór mjög illa með Keiliskonuna. Sú er par 3 en Guðrún Brá lenti í miklum vandræðum á holunni sem hún lék á 6 höggum. Fyrir utan þessa sprengju lék hún vel. Fékk tvo fugla en allar hinar holurnar fór hún á pari.

Guðrún Brá lék hringina fimm í Marokkó á 74, 70, 70, 75 og 73 höggum.

Þetta var í fyrsta sinn sem Guðrún Brá reynir fyrir sér á úrtökumótinu og gerði hún vel í að komast á lokaúrtökumótið. Hún er fjórða íslenska konan sem nær því.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.