Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍBV 26-29 | Laskaðir Eyjamenn unnu síðasta leik ársins

Anton Ingi Leifsson skrifar
Theodór Sigurbjörnsson sækir að marki Stjörnunnar
Theodór Sigurbjörnsson sækir að marki Stjörnunnar Vísir/Vilhelm
Laskaðir Eyjamenn kláruðu Stjörnumenn í síðasta leik Olís-deildar karla þetta árið, en lokatölur urðu 29-26 eftir að ÍBV hafði leitt 14-12 í hálfleik.

Eyjamenn eru tveimur stigum á eftir FH þegar liðin halda í jóla- og EM-frí, en liðin leika næst í lok janúar. Sigurinn var afar sterkur í ljósi þess að Kári Kristján Kristjánsson, Grétar Þór og Magnús Stefánsson léku ekki með vegna veikinda. Þar eru þrír lykilmenn.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með og kraftur virtist í heimamönnum. Síðan byrjuðu þeir að lenda í vandræðum með framliggjandi vörn Eyjamanna með Andra Heimi frábæran í Indjánanum.

Gestirnir voru fljótir að refsa þegar heimamenn töpuðu boltanum, en um leið og Stjarnan tapaði boltanum var hann nánast kominn í markið hjá þeim framhjá varnarlausum Sveinbirni Péturssyni sem náði sér ekki á strik í kvöld.

Sigurbergur Sveinsson dró sókn Eyjamanna að landi þegar heimamenn nálguðust gestina, en Sigurbergur var kominn með sex mörk strax í fyrri hálfleik. Róbert Aron Hostert spilaði einnig lítið í fyrri hálfleiknum og ku skýringin vera sú að hann á við einhver meiðsli að stríða. Staðan 14-12 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Stjörnumenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og voru að ná að finna glufur á varnarleik ÍBV, en laskaðir Eyjamenn virtust gefa eftir. Það ber þó að taka fram að skörð voru einnig höggvin í lið Stjörnunnar, en Ari Magnús Þorgeirsson og Stefán Darri Þórsson voru hvourugir með í kvöld.

Stjarnan náði þó bara mest tveggja marka forskoti og ÍBV var alltaf í seilingarfjarlægð. ÍBV var duglegt að refsa gestunum þegar þeir lentu í vandræðinum með varnarmúr Eyjamanna sem þéttist eftir því sem leið á síðari hálfleikinn.

Róbert Aron jafnaði metin í 22-22 þegar átta mínútur voru eftir og eftir það var ekki aftur snúið. Eyjamenn náðu að sigla tveimur mikilvægum stigum í hús, en sigurinn mjög mikilvægur fyrir það. Lokatölur 29-26.

Sigurbergur Sveinsson var frábær í liði gestanna, en hann skoraði að endingu níu mörk. Theodór Sigurbjörnsson bætti við sjö og skoruðu þeir því 16 af 29 mörkum gestanna. Aron Dagur Pálsson var í sérflokki í liði Stjörnunnar og skoraði átta mörk.

Afhverju vann ÍBV?

ÍBV virkaði einfaldlega bara sterkari á ögurstundum í leiknum í kvöld. Stjarnan fór illa að ráði sínu um miðbik síðari hálfleiks þegar liðið fór með færi til þess að komast þremur mörkum yfir. ÍBV var duglegt að refsa Stjörnumönnum sem voru lengi að skila sér til baka. Karakterssigur hjá ÍBV sem vantaði lykilmenn. Afar sterkt.

Hvað gekk illa?

Markvarsla Stjörnunnar, sér í lagi í fyrri hálfleik, var ekki góð. Það er gömul saga og ný að markverðir Stjörnunnar lúti í lægra haldi gegn markverðum andstæðings og það þarf að breytast eftir áramót ætli liðið sér að krækja í fleiri stig.

Það voru einnig brotalamir í sóknarleiknum, en Egill Magnússon skoraði til að mynda bara þrjú mörk. Þeir lentu í vandræðum með framliggjandi vörn Eyjamanna og fengu það hressilega í bakið.

Þessir stóðu upp úr

Eins og áður segir var Sigurbergur Sveinsson frábær í liði Eyjamanna. Hann skoraði mörk úr öllum regnbogans litum, en mörg marka hans komu á mikilvægum tímapunkti þegar sóknir ÍBV voru á leið í þrot eða Stjarnan hafði náð góðum kafla. Theodór var einnig öflugur. Gömul tugga þar á ferð sem verður aldrei þreytt. Aron Dagur Pálsson skoraði átta mörk og var magnaður, en Stjarnan hefði þurft meira framlag frá bekknum til þess að klára jafnan leik eins og þennan.

Hvað gerist næst?

Liðin fara nú í hina svokölluðu EM-pásu, en bæði lið eiga einn leikmann á EM í Króatíu; Eyjamenn eiga Kára og Stjarnan á Bjarka Má. Fyrsti leikur Eyjamanna, sem eru í öðru sæti, er gegn lánlausum Víkingum á heimavelli 31. janúar. Sama dag fara Stjörnumenn á Ásvelli og mæta Haukum.

Einar: Hef ekki tjáð mig um dómgæsluna en þetta var ekki boðlegt

„Við vorum að einhverju leyti klaufar. Við náðum tveggja marka forskoti og það fer á 30 sekúndum. Við köstum bara boltanum í hendurnar á þeim og þeir jafna,” sagði svekktur Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við Vísi í leikslok.

„Við vorum orðnir helvíti þreyttir síðustu tíu mínúturnar, sérstaklega lykilmenn. Við vorum að reyna að rúlla þessu, en það var erfitt. Það var lítið framlag frá bekknum.”

„Ég er stoltur af strákunum og mér fannst afrek að vera bara tveimur mörkum undir í hálfleik. Einnig er það afrek að tapa bara með þremur mörkum miðað við hvernig dómgæslan var í þessum leik.”

„Ég hef ekki tjáð mig um dómgæsluna í vetur, en þetta var ekki boðlegt,” sagði Einar. Var það eitthvað eitt fremur en annað sem fór í skapið á Einari eða bara dómgæslan yfir höfuð?

„Það var bara fátt rétt í dómgæslunni. Það voru skref dómar á Egil og Aron sem voru bara þvæla. Við fengum tvær mínútur í lokin og ruðningur á okkur, það er víti hinu megin.”

„Það voru bara sjö til átta dómar í fyrri hálfleik sem ég gæti talið upp og eitthvað annað eins í síðari hálfleik. Menn geta bara horft á þetta. Þetta er ekki boðlegt. Það er algjörlega á hreinu.”

Á tímapunkti í leiknum fékk Stjarnan mörg mörk í bakið þegar þeir einfaldlega köstuðu boltanum frá sér.

„Við vorum ekki að leysa þessa vörn nægilega vel. Mér fannst við samt finna opnanir meðan lykilmenn voru með ferska fætur. Við fórum með dauðafæri í 21-19 og það eru svona atriði sem breyta leikjunum.”

„Því miður þá heppnaðist það ekki, en mér finnst framfarir á þessu. Sérstaklega varnarlega, þrátt fyrir að við höfum fengið á okkur 29 mörk. Við erum mikið einum færri og þetta var erfitt. Þetta tók mikinn toll og vorum orðnir mjög þreyttir í lokin. Eyjamenn voru ferskari í lokin.”

Mikið hefur verið rætt og ritað um framgöngu Stjörnunnar á Íslandsmótinu til þessa. Finnst Einari þetta vonbrigði, að vera einungis með fimm sigra í fjórtán leikjum?

„Þetta eru ákveðinn vonbrigði. Ég hefði viljað vera með fleiri stig og frammistaðan mætti vera betri. Þetta er staðreynd, en þetta er ekki búið. Nú kemur kærkomið frí og við náum að lappa upp á liðið. Við mætum sterkir til leiks á nýju ári. Það er klárt,” sagði Einar harður að lokum.

Arnar: Var smeykur

„Ég verð að viðurkenna að ég var smeykur við þennan leik. Við spiluðum þrjá leiki í síðustu viku og það tók toll. Það voru veikindi í hópnum og við án línu- og lykilmanna. Ég var smeykur, en strákarnir sýndu karakter og kláruðu þetta,” sagði Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, í samtali við Vísi.

„Við vorum erfiðir sjálfum okkur í tíu til fimmtán mínútur í síðari hálfleik, en síðan fórum við að ná fókus aftur og spila okkar vörn og fá mörk úr hraðaupphlaupum. Þá vorum við sjálfum okkur líkir og kláruðum þetta.”

ÍBV fékk mörg mörk úr hröðum upphlaupum í leiknum, en þeir voru duglegir að refsa Stjörnumönnum grimmilega þegar þeir töpuðu boltanum.

„Andri Heimir og varnarleikurinn þar á bakvið bjó til þessi mörk. Þetta er ákveðið flæði og Andri er búinn að vera frábær í fjarveru Elliða. Komið gífurlega ferskur inn í okkar lið og er frábær viðbót.”

„Hann var frábær og við fengum mörg mörk úr hröðum upphlaupum. Sigurbergur tók leikinn dálítið á sig í dag. Róbert er tæpur og ungu strákarnir búnir að vera í prófatörn, hafa spilað mikið undanfarið og eru orðnir þreyttir.”

„Sigurbergur spilaði eins og hershöfðingi í dag. Hann tók leikinn á sig og var frábær sóknarlega,” en hvar voru allir leikmennirnir hjá ÍBV?

„Maggi og Elliði eru enn að jafna sig eftir meiðsli. Kári og Grétar eru veikir, en Kári liggur í rúminu með beinverki. Hann fékk streptakokka í gærmorgun og þegar Kári fær beinverki eru þeir miklir. Við vorum haltir.”

Tíu sigrar í fjórtán leikjum hjá ÍBV sem situr í öðru sæti. Við tekur umtalaðasta heimaleikjasyrpa sögunnar og Arnari hlakkar til í lok janúar.

„Deildin er bara frábær; spennandi og flest lið sterk og góð. Það eru skemmtilegir tímar framundan í handboltanum. Nú hefst mótið fyrir alvöru. Við eigum einn útileik eftir og nokkra heimaleiki. Við erum sáttir með hvernig þetta lítur út, en við þurfum að laga fullt af hlutum. Við þurfum líka að vinna vel í fríinu,” sagði Arnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira