Erlent

Nýsjálenskt fjall fær loks réttindi sem einstaklingur

Lovísa Arnardóttir skrifar
Taranaki í Nýja-Sjálandi.
Taranaki í Nýja-Sjálandi. Nordicphotos/AFP
Fjallinu Taranaki á Nýja-Sjálandi hafa verið veitt réttindi einstaklings. Þetta er þriðja landfræðilega kennileitið sem fær slík réttindi þar. Whanganui-ánni voru einnig veitt þessi réttindi fyrr á árinu.

Átta Maóríaættbálkar ásamt ríkisstjórninni munu deila umsjón með fjallinu. Ættbálkarnir, sem trúa því að fjallið sé forfaðir þeirra og fjölskyldumeðlimur, hafa lengi barist fyrir því að fá þessa viðurkenningu.

Samkvæmt samningi ríkisstjórnar Nýja-Sjálands við Maóríaættbálkana mun ríkisstjórnin biðja þá afsökunar á brotum gegn fjallinu. Ættbálkarnir munu ekki fá neinar aðrar bætur.

Þessi nýja staða fjallsins þýðir að ef einhver gerir fjallinu mein, þá væri það lagalega séð eins og að skaða annan meðlim ættbálksins. Fjallið er einn vinsælasti áfangastaður ferðamanna þar í landi, eftir að Lonely Planet tilnefndi Taranaki-hérað á Nýja-Sjálandi annan af bestu áfangastöðum ársins 2017.

Fyrr á árinu fékk Whanganui-áin slík réttindi. Það var niðurstaða 140 ára baráttu Maóría ættbálksins sem býr við ána og lítur einnig á hana sem forföður sinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×