Erlent

Egyptar tóku fimmtán af lífi fyrir árás á Sínaí-skaga

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá vettvangi mannskæðrar árásar í síðasta mánuði.
Frá vettvangi mannskæðrar árásar í síðasta mánuði. Nordicphotos/AFP
Fimmtán voru teknir af lífi í Egyptalandi í gær eftir að hafa verið sakfelldir fyrir árás á hermenn á Sínaí-skaga árið 2013. Aftökurnar fóru fram í tveimur fangelsum í norðurhluta landsins.

Um var að ræða fyrstu fjölda­aftöku Egypta frá því sex skæruliðar voru hengdir fyrir tveimur árum. Mennirnir voru sakfelldir fyrir fjórum árum en þeir myrtu níu hermenn.

Átök hafa geisað á skaganum undanfarin ár. Hafa hermenn þar kljáðst við hryðjuverkamenn, meðal annars skæruliða hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki.

Hafa árásir þeirra einkum beinst gegn hermönnum, lögreglu og dómstólum.

Átökin hófust eftir að íslamistanum Mohamed Morsi var bolað úr stóli forseta landsins. Að minnsta kosti þúsund meðlimir öryggissveita landsins hafa fallið í bardögunum. Fjöldi fallinna vígamanna liggur ekki fyrir.

Í síðustu viku sprengdu ISIS-liðar þyrlu sem var á jörðu niðri á flugvelli á norðurhluta Sínaí-skaga. Einn hermaður fórst í árásinni og tveir særðust.

Í nóvember er talið að ISIS hafi staðið að hryðjuverkaárás á mosku á norðurhluta Sínaí-skaga en á þriðja hundrað létu lífið í þeirri árás.

Eftir árásina í síðasta mánuði ákvað forsetinn Abdul Fattah al-Sisi að gefa egypska hernum þriggja mánaða frest til þess að kveða niður starfsemi ISIS á svæðinu. Heimilaði hann að öllum mögulegum ráðum yrði beitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×