Erlent

Myrt af nýnasískum kærasta dóttur sinnar

Atli Ísleifsson skrifar
Scott Fricker, 48 ára, og Buckley Kuhn-Fricker, 43 ára, voru myrt á heimili sínu í Virginíu.
Scott Fricker, 48 ára, og Buckley Kuhn-Fricker, 43 ára, voru myrt á heimili sínu í Virginíu. facebook
Hjón í Bandaríkjunum voru myrt af kærasta dóttur sinnar á heimili sínu í Reston í Virginíu þremur dögum fyrir jól. Bandarískir fjölmiðlar greina nú frá því að á síðustu vikum hafi þau beðið dóttur sína um að halda sig fjarri sautján ára manni sem þau töldu vera nasista. Hann hefur nú verið ákærður fyrir morðin.

Washington Post segir frá því að hjónin, hinn 48 ára Scott Fricker og hin 43 ára Buckley Kuhn-Fricker, hafi óttast að maðurinn myndi reyna að deila nýnasískum skoðunum sínum með dóttur þeirra.

Janet Kuhn, móðir Kuhn-Fricker, segir við bandaríska blaðið að Fricker og Kuhn-Fricker hafi komið að drengnum í svefnherbergi dóttur sinnar og að það hafi leitt til rifrildis sem lauk með að þau voru drepin. Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, á svo að hafa reynt að svipta sig lífi, en lifað af.

Washington Post greinir enn fremur frá því að Kuhn-Fricker hafi sent stjórnendum við skóla dótturinnar skjáskot af samfélagsmiðlum sautján ára mannsins. Þar var að finna ýmiss konar hatursáróður í garð samkynhneigðra, gyðinga og vísanir í bókabrennur Adolfs Hitler og fleira.

Í umræddum tölvupósti ritaði Kuhn-Fricker að hún myndi ekki vara við drengnum ef hann hefði hagað sér eins og venjulegur táningur en að hann hefði sýnt fram á að hann væri „skrímsli“. „Þetta var hans val. Hann dreifir hatri,“ á hún að hafa skrifað í bréfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×