Erlent

Smíðuðu hæsta legóturn í heimi

Atli Ísleifsson skrifar
Turninn er gerður úr rúmlega hálfri milljón legókubba.
Turninn er gerður úr rúmlega hálfri milljón legókubba. Vísir/AFP
Borgarstarfsmenn og sjálfboðaliðar í Tel Avív í Ísrael lögðu í dag lokahönd á smíði hæsta turns í heimi sem einvörðungu er gerður úr legó-kubbum. Turninn er 36 metra hár og verða upplýsingar nú sendar til Heimsmetabókar Guinness til staðfestingar.

Turninn er gerður úr rúmlega hálfri milljón legókubba sem íbúar borgarinnar hafa gefið til verkefnisins.

Smíðin hófst fyrir um ári af kennurum Omer Sayag, átta ára drengs sem lést úr krabbameini árið 2014, en hann var mikið að leika sér með legó þegar hann glímdi við veikindi sín. Turninn stendur á Rabintorgi, við sveitarstjórnarskrifstofur borgarinnar.

Sá legó-turn sem áður átti metið var reistur á heimssýningunni í Mílanó árið 2015. Sá var 35,05 metrar á hæð.

Engin smásmíði!Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×