Erlent

Bærinn Erie á kafi í snjó

Samúel Karl Ólason skrifar
Þó dregið hafi úr snjókomunni er von á meiri snjókomu, allt að 30 sentímetrum, á næstu dögum.
Þó dregið hafi úr snjókomunni er von á meiri snjókomu, allt að 30 sentímetrum, á næstu dögum.
Bærinn Erie í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum er á kafi í snjó þar sem snjókoman hefur mælst meiri en einn og hálfur metri á nokkrum dögum. Þó dregið hafi úr snjókomunni er ekkert lát á henni. Von er á allt að 30 sentímetrum til viðbótar næstu daga.

„Þetta er lamandi snjókoma,“ sagði veðurfræðingurinn Zach Sefcovic við Reuters.

„Fólkið í þessum hluta ríkisins er ekki óvant snjókomu en svo mikil snjókoma á jafn skömmum tíma hefur ekki sést áður.“

Hér má sjá svokallað timelapse-myndband, sem sýnir snjókomuna á einum sólarhring.

59 ára gamalt met hefur nú verið slegið. Mesta snjókoman sem mælst hafði var 111 sentímetrar árið 1958. Meðalsnjókoma yfir heilan vetur í Erie er um tveir og hálfur metri, samkvæmt frétt Washington Post.

Það sem af er desember hefur snjókoman mælst um 233 sentímetrar.

Ríkisstjóri Pennsylvaníu, Tom Wolf, sendi þjóðvarðsliða á vettvang til að hjálpa heimamönnum við mokstur og sjúkraflutninga í nokkra daga.

Snjókoman er til komin vegna þess að kalt loft kom yfir Erie-vatn úr norðri og tók í sig mikinn raka úr vatninu, sem var tiltölulega hlýtt.

Hér er snjókoman útskýrð af blaðamanni Washington Post.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×