Erlent

Risastórt málverk af typpi fékk ekki að standa lengi

Þórdís Valsdóttir skrifar
Málverkið stóð einungis í nokkra daga áður en málað var yfir það.
Málverkið stóð einungis í nokkra daga áður en málað var yfir það. Instagram/Carolina Falkholt
Sænska listakonan Carolina Falkholt málaði gríðarstóran getnaðarlim á húsvegg við götuna Broome St. í New York á aðfangadagskvöld. Veggmyndin fékk ekki að standa lengi því málað var yfir hana að beiðni húseiganda eftir einungis nokkra daga.

Falkholt var fengin til að gera verkið af listasamtökum í hverfinu en ekki virðist ljóst hvort samþykki húseigandans hafi legið fyrir.

Falkholt hefur einnig málað stærðarinnar málverk af píku á annað hús í New York og sagði í viðtali við NBC að málverkin snerust um það fólk ætti ekki að skammast sín fyrir líkama sinn og sjálft sig sem kynveru. 

„Það að tala um þetta efni opinberlega er nauðsyn fyrir helbrigðan og friðsamlegan heim,“ sagði Falkholt og bætti við að listin væri einn af fáum vettvöngum þar sem enn væri hægt að tjá sig frjálslega. 

Íbúar í hverfinu voru heldur ósáttir með myndina og beindu óánægju sinni til borgaryfirvalda og kröfðust þess að málað yrði yfir myndina. 

Falkholt birti mynd af málverkinu á Instagram síðu sinni og viðbrögðin leyndu sér ekki. Instagram notendum blöskraði mörgum hverjum myndin, en einnig voru margir sem studdu listakonuna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×