Erlent

Blaðamönnum haldið með morðingjum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
"Blaðamennska er ekki glæpur,“ var slagorð mótmælenda.
"Blaðamennska er ekki glæpur,“ var slagorð mótmælenda. vísir/afp
Wa Lone og Kyaw Soe Oo, blaðamenn Reuters sem hugðust fjalla um þjóðernishreinsanir á Róhingjum í Rakhine-héraði Mjanmar, deila aðstöðu í fangelsi með morðingjum og eiturlyfjabarónum en þeir voru handteknir þann 12. desember síðastliðinn, grunaðir um vörslu leynilegra upplýsinga um aðgerðir hersins í Rakhine. Frá þessu greindu fjölskyldur blaðamannanna á blaðamannafundi í gær.

Á fundinum greindi Pan Ei Mon, eiginkona Lone, frá því að blaðamönnunum hefði verið boðið til fundar á veitingastað þennan sama dag við tvo lögreglumenn sem þeir höfðu ekki hitt áður. Lögreglumennirnir hafi rétt þeim skjöl, blaðamennirnir síðan greitt reikninginn og farið út. „Samstundis gripu þá sjö eða átta lögreglumenn sem settu þá í járn og handtóku,“ sagði Mon. Lögð hafi sem sagt verið gildra fyrir blaðamennina.

Samkvæmt mjanmörskum lögum er fjórtán ára fangelsisvist viðurlögin við því broti sem tvímenningarnir eru sakaðir um. Yfirvöld hafa hins vegar lítið viljað tjá sig um málið. Í gær kom fram í yfirlýsingu að tveir lögreglumenn hefðu verið handteknir sama dag og blaðamennirnir. Reuters hefur þó ekki fengið svör við því hvað hafi orðið um lögreglumennina eða hvort þeir séu yfirhöfuð sömu lögreglumenn og áttu fundinn með Lone og Oo.

„Við gripum til aðgerða vegna þess að þeir frömdu glæp. Það þarf að leysa þetta mál fyrir dómstólum,“ sagði Myint Htwe yfirlögregluþjónn um Lone og Oo á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×