Erlent

Ítalska þingið leyst upp og kosið í mars

Atli Ísleifsson skrifar
Paolo Gentiloni tók við embætti forsætisráðherra Ítalíu í desember á síðasta ári.
Paolo Gentiloni tók við embætti forsætisráðherra Ítalíu í desember á síðasta ári. Vísir/AFP
Sergio Mattarella, forseti Ítalíu, leysti í gær upp ítalska þingið og hefur verið boðað til kosninga þann 4. mars næstkomandi. Kannanir benda til að mjótt verði á munum milli fylkinga.

Ríkisstjórn Paolo Gentiloni forsætisráðherra kom saman til fundar í gærkvöldi til að staðfesta kjördag. Segja má þar með hefjist kosningabarátta sem hefur þó í raun staðið í margar vikur þar sem vitað væri að gengið yrði til kosninga í vor.

Kannanir benda til að engin fylking – hvorki bandalag flokka undir forystu Jafnaðarmannaflokksins PD, Fimm stjörnu hreyfingin eða bandalag hægriflokkanna Lega nord og Forza Italia – muni ná meirihluta á þingi.

Allir flokkar hafa lofað því að skattar verði lækkaðir og þá er ljóst að innflytjendamálin verða mikið til umræðu.

Gentiloni varði í gær árangur ríkisstjórnar sinnar og hét því að hann muni tryggja að ekki muni ríkja pólitískur óstöðugleiki í landinu þar til að ný ríkisstjórn tekur við völdum. „Við skulum heldur ekki ýkja hættuna á óstöðugleika, enda erum við orðin frekar bólusett gegn honum,“ sagði Gentolini. Alls hafa 64 ríkisstjórnar verið við völd á Ítalíu frá lokum seinna stríðs.

Hinn 63 ára Gentiloni er leiðtogi Jafnaðarmanna. Reiknað er með að Matteo Renzi muni snúa aftur en hann lét af embætti forsætisráðherra í desember á síðasta ári eftir að honum mistókst að fá ný kosningalög samþykkt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×