Salah skoraði tvö er Liverpool kom til baka

Dagur Lárusson skrifar
Salah skorar fyrra markið.
Salah skorar fyrra markið. Vísir/Getty
Liverpool komst í 41 stig eftir 2-1 sigur á Leicester á Anfield þar sem Mohamed Salah skoraði bæði mörk Liverpool.

Leikurinn hófst heldur betur með látum en eftir aðeins þrjár mínútur var Leicester komið yfir. Þá vann Iborra boltann af Emre Can á miðjunni og gaf á Riyad Mahrez inná teig Liverpool sem lagði hann fyrir Jamie Vardy sem skilaði boltanum í netið.

Eftir þetta sótti Liverpool í sig veðrið og sótti stíft og fengu nokkur ágætis færi en gestirnir fóru þó með forystuna í leikhlé.

Liverpool byrjaði seinni hálfleikinn með miklum krafti og náði að jafna leikinn strax á 52.mínútu en þar var á ferðinni Mohamed Salah sem skoraði sitt sextánda mark í deildinni.

Næstu mínúturnar skiptust bæði lið á að sækja og náði Liverpool að skora en markið var dæmt af þar sem Mané var rangstæður.

Á 76. mínútu kom markið sem stuðningsmenn Liverool voru búnir að bíða eftir en þá fékk Mohamed Salah boltann og sneri laglega á Harry Maguire, varnarmann Leicester, og skoraði sitt annað mark og sautjánda mark í deildinni.

Þar við sat og er Liverpool nú komið í 41 stig og situr í 4.sæti deildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira