Palace eyðilagði áramótapartý City

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sane í baráttunni í dag
Sane í baráttunni í dag vísir/getty
Í fyrsta skipti á tímabilinu í öllum keppnum, að undanskildum einum leik í deildarbikarnum, náði Manchester City ekki að skora mark.

Pep Guardiola fór með leikmenn sína til Lundúna þar sem þeir mættu Roy Hodgson og hans mönnum í Crystal Palace í hádramatískum leik.

Palace mætti tilbúið til leiks og byrjaði leikinn mjög vel. Þeir héldu meistaraefnunum vel í skefjum og áttu góð færi sjálfir. Það var markalaust þegar gengið var til hálfleiks, en aldrei fyrr á tímabilinu hafði City litið eins vinnanlega út.

Gestirnir mættu aðeins kröftugri úr búningsherbergjum, en náðu þó aldrei að koma boltanum í netið.

Það dró til tíðinda þegar venjulegur leiktími rann sitt skeið er Jonathan Moss dæmdi vítaspyrnu á Raheem Sterling fyrir að fella Wilfried Zaha í teignum. Luka Milivojevic fór á punktinn, en spyrna hans var hræðileg og Ederson varði í markinu.

City fór af stað í skyndisókn og Jason Puncheon tæklaði Kevin de Bruyne mjög harkalega. Báðir leikmenn lágu eftir viðskiptin og voru bornir af velli á börum. Fyrr í leiknum hafði Scott Dann verið borinn af velli og Gabriel Jesus haltrað grátandi til búningsherbergja. Dýrkeyptur leikur fyrir bæði lið.



Gamlársdagur reynist City erfiður, en liðið hefur ekki unnið lokaleik ársins síðan árið 2013 og þetta var í fyrsta skipti í 132 daga sem City tapar stigum í úrvalsdeildinni. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira