Lífið

Hefur tvívegis beðið ljósmyndarann sem hann sparkaði í afsökunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Josh Homme á tónleikunum í Los Angeles síðastliðið laugardagskvöld.
Josh Homme á tónleikunum í Los Angeles síðastliðið laugardagskvöld. Vísir/Getty
Josh Homme, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Queens of the Stone Age, hefur beðist afsökunar á það hafa sparkað í andlit ljósmyndara á tónleikum í Los Angeles síðastliðið laugardagskvöld.

Ljósmyndarinn sem um ræðir er Chelsea Lauren en hún sagði að greinilegur ásetningu hefði verið í sparki Homme.

Birt var yfirlýsing frá Josh Homme á Twitter-síðu Queens of the Stone Age en þar sagði hann innlifun sína á tónleikunum hafa orðið þess valdandi að hann gleymdi stund og stað.

„Ég sparkaði í ljósabúnað á sviði. Mér var bent á í dag að á meðal þess sem ég hélt að hefði verið búnaður á sviði hafi verið myndavél sem ljósmyndarinn Chelsea Lauren hélt á. Það var ekki ætlun mín og mér þykir það leit. Ég myndi aldrei viljandi valda neinum skaða sem er á tónleikum sveitarinnar og vonast til að Chelsea meðtaki þessa einlægu afsökunarbeiðni mína,“ segir í yfirlýsingu Homme.

Hann birti svo aðra afsökunarbeiðni í myndbandsformi þar sem hann sagði hegðun sína hafa verið óafsakanlega.

„Ég var algjör asni og þykir það miður og vona að þú sért í lagi. Ég hef gert mörg mistök og þar á meðal er það sem gerðist í gærkvöldi. Ég vil vera góður maður en tókst það ekki í gærkvöldi.“

Fjallað var ítarlega um málið á vef Variety en þar kom fram að Homme hefði skorið ennið á sér viljandi skömmu eftir atvikið. Hann kallaði áhorfendur tónleikanna „þroskahefta“ og hafði þetta að segja um bresku sveitina Muse, sem var eitt af aðalatriðum tónleikanna: „Fuck Muse!“

Hann hvatti einnig áhorfendur til að baula á sig, bað þá einnig um að klæða sig úr buxunum og sagði: „Ég vil veita ykkur kvöld sem þið munið aldrei gleyma.“

Josh Homme kom til Íslands árið 2005 og lék þá á tónleikum með hljómsveit sinni Queens of the Stone Age í Egilshöll ásamt hljómsveitinni Foo Fighters.

Homme er einnig trommari bandarísku sveitarinnar Eagles of Death Metal sem spilaði á tónleikum á Bataclan í París þar sem hryðjuverkamenn myrtu 89 tónleikagesti í nóvember árið 2015.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×