Erlent

Handtaka fyrrverandi forseta fyrirskipuð

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Cristina Fernández de Kirchner vísar öllum ásökunum á bug.
Cristina Fernández de Kirchner vísar öllum ásökunum á bug. vísir/epa
Dómari í Argentínu hefur gefið út handtökuskipun á hendur fyrrverandi forseta landsins, Cristinu Fernández de Kirchner. Fernández, sem var forseti frá 2007 til 2015, er sökuð um samvinnu við erlent ríki til að koma í veg fyrir rannsókn á mesta hryðjuverkinu í sögu Argentínu. Voveiflegt andlát sérstaks saksóknara kemur einnig við sögu.

Í janúar árið 2015 fannst saksóknarinn Alberto Nisman látinn á heimili sínu í Búenos Aíres með skotsár á höfði nokkrum klukkustundum áður en hann átti að koma fyrir þingið og kynna skýrslu sína um meinta aðild Fernández að hinu svokallaða „Irangate“ þegar hún var forseti.

Sérstaki saksóknarinn hafði árið 2006 sakað íranska embættismenn um að standa á bak við sprengjuárásina á menningarsetur gyðinga í Búenos Aíres í júlí 1994. Alls létust 85 manns í árásinni og um 300 særðust. Nisman hélt því fram að liðsmenn Hizbollah hefðu framið hryðjuverkið.

Í skýrslu sinni sem til stóð að kynna fyrir þinginu árið 2015 sakaði Nisman Cristinu Fernández de Kirchner og utanríkisráðherra hennar, Héctor Timerman, um að hafa hylmt yfir meinta aðild Írana að hryðjuverkinu. Saksóknarinn fullyrti að ríkisstjórn Fernández hefði með því viljað tryggja hagstæða viðskiptasamninga við Íran, einkum viðskipti með olíu frá Íran, að því er greint er frá á fréttavef BBC.

Argentínumenn voru slegnir yfir fullyrðingum saksóknarans og veltu því fyrir sér hvernig dauða hans hefði borið að höndum. Samkvæmt rannsókn sem stjórn Fernández fyrirskipaði svipti saksóknarinn sig lífi. Hundruð þúsunda Argentínumanna efndu til mótmæla á götum úti og sökuðu yfirvöld um að standa á bak við andlát saksóknarans. Eftir að flokkur Fernández, Perónistaflokkurinn, missti völdin fyrir tveimur árum var fyrirskipuð ný rannsókn. Niðurstaðan varð sú að Nisman hefði verið myrtur.

Það var svo í síðustu viku sem dómarinn Claudio Bonadio fyrirskipaði handtöku forsetans fyrrverandi og nokkurra embættismanna vegna ásakananna um samkomulagið við Íran. Fernández, sem nú er orðin þingmaður, efndi til blaðamannafundar og sagði ásakanirnar fáránlegar. Ekki verður hægt að handtaka hana nema þingið aflétti friðhelgi hennar.

Enn standa yfir rannsóknir vegna ásakana um að forsetinn fyrrverandi hafi hagnast gríðarlega á því að taka við mútugreiðslum vegna byggingaverkefna og með því að hafa áhrif á gengi argentínska gjaldmiðilsins.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×