Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Höttur 86-77 | Höttur fór í jólaköttinn

Magnús Einþór Áskelsson í Ljónagryfjunni í Njarðvík skrifar
Ragnar Helgi Friðriksson, leikstjórnandi Njarðvíkur.
Ragnar Helgi Friðriksson, leikstjórnandi Njarðvíkur. vísir/eyþór
Njarðvíkingar byrjuðu leikinn betur í kvöld og virtust ætla að jarða Hattarmenn strax í byrjun. Heimamenn pressuðu stíft og fóru með tíu stiga forskot inní annann leikhluta. Njarðvíkingar héldu áfram að sauma að Hattamönnum í upphafi leikhlutans og náðu mest fimmtán stiga forskoti. Gestirnir spýttu þá í lófana og með þéttum og hörðum varnarleik náðu þeir að minnka muninn niður í átta stig fyrir hálfleik.

Í þriðja leikhluta jöfnuðu Hattarmenn leikinn strax á fyrstu mínútum hans, undir dyggri stjórn Kelvin Lewis sem var hreint út sagt magnaður í seinni hálfleik fyrir gestina. Hattarmenn héldu áfram að spila fast og urðu Njarðvíkingar pirraðir og kvörtuðu mikið í dómurunum á þessum kafla.

Njarðvíkingar náðu að halda frumkvæðinu og leiddu með þremur stigum, 61-58. Kelvin Lewis jafnaði leikinn strax í byrjun fjórða leikhluta. Leikurinn hélt áfram að vera jafn en Hattarmönnum vantaði alltaf herslumuninn til að komast yfir síðasta hjallann og ná frumkvæðinu. Njarðvíkingar settu svo niður tvo þrista, fyrst frá Oddi og síðan ótrúlegum þrist frá Snjólfi sem kom þeim í átta stiga forskot þegar um tvær mínútur voru eftir. Neistinn slokknaði loksins á gestunum eftir þetta og sigldu Njarðvíkingar sigrinum í höfn.

Af hverju vann Njarðvík?

Njarðvík sigldi þessum leik í lokin á gæðum sem þeir hafa í sínum fórum. Þeir voru líka yfir í frákastabraráttunni og tóku mikilvæg sóknarfráköst í fjórða leikhluta. Hattarmenn voru í miklum villuvandræðum í þessum leik enda fengu þeir 34 villur á sig í leiknum og misstu fjóra leikmenn út af með fimm villur, þeirra á meðal Kelvin Lewis sem fór út af þegar rúmlega mínúta var eftir og þá var dagskránni endanlega lokið fyrir gestina.

Hverjir stóðu upp úr?

Kelvin Lewis leikmaður Hattar var besti maður vallarins í kvöld en hann skoraði 32 stig, tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Mirko Stefan Virijevic var einnig öflugur með 13 stig og 9 fráköst en hann klúðraði þó mikilvægum skotum á lokamínútunum. Hjá Njarðvík var Terrel Vinson að vanda öflugur og náði þrennu í kvöld en hann með 17 stig, 22 fráköst og 10 stoðsendingar. Maciek Baginski var stigahæstur fyrir heimamenn með 18 stig.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur liðana var ekkert sérstakur í þessum slagsmálaleik í kvöld. Þetta var harður leikur og hafði dómaratríóið í fullu fangi með að dæma þennann leik og stundum var erfitt að lesa línuna sem þeir voru að leggja í Ljónagryfjunni í kvöld.

Tölfræði sem vekur athygli

Gestirnir fengu 34 villur á sig í kvöld gegn 15 villum heimamanna. Alls sendu þeir heimamenn á vítalínuna í 48 skipti. Vítanýting Njarðvíkinga var alls ekki góð eða 58%.

Hvað næst?

Nú tekur við jólafrí hjá liðinum en eftir áramótin tekur Njarðvík á móti íslandsmeisturum KR á heimvelli. Höttur fer í Ásgarðinn í Garðabæ og mætir liði Stjörnunnar.

Njarðvík-Höttur 86-77 (25-15, 13-15,23-28, 25-19)

Njarðvík: Terrel Wilson 17/22 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 18, Ragnar Nathanaelsson 13, Logi Gunnarsson 13, Snjólfur Marel Stefánsson 9/14 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 9, Vilhjálmur Theodór Jónsson 5, Gabríel Sindri Möller 2.

Höttur: Kevin Michaud Lewis 32/7 fráköst , Mirko Stefan Virijevic 13, Bergþór Ægir Ríkharðsson 10, Brynjar Snær Grétarssson 8, Andrée Fares Michelsson 4, Gísli Þórarinn Hallsson 3 , Sigmar Hákonarson 3, Nökkvi Jarl Óskarsson 2, Hreinn Gunnar Birgisson 2.

Daníel: Áttum í veseni með þá síðustu þrjátíu mínúturnar

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með erfiðann sigur gegn baráttuglöðum Hattarmönnum og hrósaði gestunum fyrir spilamennskuna í kvöld.

„Þetta hafðist, Höttur er með virkilega sterkt lið þrátt fyrir að vera án sigurs í vetur þá eru þeir með mjög góðann Bandaríkjamann. Þeir eru þéttir, vel skipulagðir og vel þjálfaðir þannig að það er alltaf erfitt að mæta þeim. Við áttum í hörku veseni með þá allaveganna síðustu þjátíu mínúturnar í kvöld,“ sagði hann.

Barátta gestanna virtist fara í skapið á heimamönnum sem tuðuðu töluvert í dómurum leiksins í kvöld. Daníel sagði að slíkt gæti tekið liðið stunum úr jafnægi.

„Já, ég veit það ekki það ekki. Það tekur okkur svolítið úr jafnvægi að vera að væla. Það fer engum vel að væla en ég held að dómararnir gerðu sitt besta í kvöld eins og þeir gera alltaf. Þeir áttu erfitt með að dekka okkur inni í teig enda fáum við 48 víti hér í kvöld. Höttur gerði sitt vel og við klikkuðum úr tuttugu vítum hér í leiknum - vonandi var leikplanið þeirra að senda okkur á línuna því við vorum mjög slakir þar,“ sagði hann.

Daníel nokkuð sáttur við stöðu síns liðs nú þegar mótið er hálfnað, en greinilegt að stefnan er sett á eitt efstu fjögurra sætanna. Til þess þarf liðið að bæta enn frekar sinn leik að hans mati.

„Okkur langar að vera í topp fjórum og ég held að við höfum fulla burði til þess en við þurfum virkilega að bæta okkar leik. Sérstaklega seinni hluta tímabilsins, þá þurfum við að vera miklu þéttari og skipulagðari og ná að stjórna leiknum miklu betur. Því að eins og sást í kvöld þá gerði Höttur rosalega vel hérna í að koma okkur út úr okkar aðgerðum,” sagði Daníel Guðni.

Um orðróminn að Kristinn Pálsson sé að koma heim vildi Daníel ekki staðfesta það en staðfesti þó að það sé þeirra ósk að fá hann í Ljónagryfjuna.

„Ég get ekki sagt neitt fyrr en það er búið að skrifa undir en það er ósk okkar að fá hann heim og vonandi tekst það,“

Viðar Örn: Við þurfum að ná að stíga yfir þennann hjalla

Viðar örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var mjög svekktur í leikslok enda hans menn inni í leiknum fram á síðustu mínútu. Hann var ekki sáttur með dómara leiksins og vildi meina að það hafi verið allt of mikið dæmt á sitt lið þrátt fyrir að þeir hafi spilað fast.

„Ég er bara drullusvekktur eftir þetta tap hérna. Mér fannst við berjast og vera skynsamir á löngum pörtum og fá fín skot.Í seinni hálfleik vorum við að vinna fyrir því sem við ætluðum að gera. Við vorum svolítið villtir í fyrri hálfleik. Við þurfum að ná að stíga yfir þennann hjalla sem virðist vera okkur erfiður. Snjólfur tekur hérna svakalegann þrist þegar hann er búinn að dripla í tíu hringi og veit ekkert hvað hann er að gera. Það var bara risastórt. Við verðum undirbúa okkur um jólin með því að fá einhverja til að dæma á æfingum í fimm á móti átta. Það er 36-15 í villum hérna í kvöld, það er of mikið,” sagði hann.

Viðar vill ekki leggja árar í bát þrátt fyrir að vera stigalausir og hefur ennþá trú að þeir geti bjargað sér frá falli en viðurkennir að það sé ekki auðvelt. Honum finnst vera stígandi í spilamennskunni fyrir utan að þeir féllu út úr bikarnum gegn Breiðablik í vikunni.

„Já ég hef trú á því en þetta verður alltaf að þyngra og þyngra. Við verðum líka að horfa á til lengri tíma, bæta okkur í körfubolta og halda áfram. Mér finnst frammistaðan núna undanfarið vera betri en hún var til að byrja með, fyrir utan þessa hörmungar helvíti í vikunni. Nú fáum við jólafrí til að hlaða batteríin en auðvitað er líðan manna eftir atvikum. Það verður að nýta þetta til að efla sig, verða betri leikmenn og persónur,” sagði hann.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira