Innlent

Krafa flugvirkja er 20% launahækkun

Hörður Ægisson og Ólöf Skaftadóttir skrifa
Flugvirkjar Icelandair hafa boðað til verkfalls frá og með klukkan sex á sunnudagsmorgun.
Flugvirkjar Icelandair hafa boðað til verkfalls frá og með klukkan sex á sunnudagsmorgun. vísir/vilhelm
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fara flugvirkjar fram á 20 prósenta launahækkun í skammtímasamningi í viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins (SA). Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segist í samtali við blaðið ekki geta staðfest nákvæma tölu í kröfugerð flugvirkja. Hins vegar geti hann sagt að ef gengið yrði að kröfu flugvirkja væri sá kjarasamningur kostnaðarsamari en nokkur dæmi eru um í samningum SA undanfarna tvo áratugi.

„Kröfur flugvirkja eru óaðgengilegar með öllu og margfeldi af því svigrúmi sem er til staðar,“ segir Halldór Benjamín. „Tíminn er á þrotum og það eru miklir hagsmunir undir hjá tugþúsundum viðskiptavina og fjölskyldum þeirra í aðdraganda jóla.“

Fundi flugvirkja hjá Icelandair og SA var slitið upp úr sjö í gær. Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir enga breytingu hafa orðið eftir fundinn. „Það er ekkert að gerast. Þeirra samninganefnd virðist ósköp róleg yfir stöðu mála. Ég er að minnsta kosti farinn að setja mig í stellingar fyrir verkfall á sunnudag.“

Flugvirkjar hjá Icelandair hafa boðað til ótímabundins verkfalls frá og með klukkan sex á sunnudagsmorgun. Ljóst er að slík verkstöðvun gæti haft áhrif á ferðaáætlanir um tíu þúsund farþega á dag. Um 300 flugvirkjar starfa nú hjá flugfélaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×