Viðskipti innlent

Hætta við mótmælin eftir tilkynningu Klakka

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Vísir
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hafa hætt við fyrirhuguð mótmæli fyrir utan höfuðstöðvar Klakka í Ármúla eftir að stjórn félagsins gaf það út að hún hygðist mæla með því að bónusgreiðslur stjórnenda upp á 550 milljónir yrðu dregnar til baka. Vilhjálmur greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni.

Boðað hafði verið til mótmæla í hádeginu í dag, föstudaginn 15. desember. Áttu þar bílar að safnast saman fyrir framan höfuðstöðvar Klakka í Ármúla og þeyta flautum í mótmælaskyni.

Þeir segjast fagna ákvörðuninni og hætti því við mótmælin. Baráttunni sé þó hvergi nærri lokið og muni þeir fylgjast vel með gangi mála og bregðast harkalega við ef fyrirtæki feti þá braut sem Klakki ætlaði að gera.

Fréttablaðið greindi frá því á miðvikudaginn að stjórn Klakka hefði á hluthafafundi ákveðið að koma á kaupaukagreiðslum vegna fyrirhugaðrar sölu á Klakka en einnig vegna annarra eigna félagsins.

Ákvörðunin vakti hörð viðbrögð almennings og gaf stjórn Klakka það út í gær að hún hygðist mæla með því, við hluthafa félagsins, að kaupaukagreiðslurnar yrðu dregnar til baka.

Lesa má Facebook-færslu Vilhjálms í heild hér að neðan, þar sem hann greinir frá því að hætt hafi verið við mótmælin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×