Viðskipti innlent

Fasteignasölur fengu dagsektir vegna ófullnægjandi verðmerkinga

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Þegar skoðun hófst árið 2016 uppfyllti aðeins ein af 109 fasteignasölum sett skilyrði.
Þegar skoðun hófst árið 2016 uppfyllti aðeins ein af 109 fasteignasölum sett skilyrði. vísir/vilhelm
Neytendastofa ákvað þann 5. desember síðastliðinn að veita sautján fasteignasölum dagsektir þar sem ástand verðmerkinga á sölustöðum og vefsíðum þeirra uppfyllti ekki þau skilyrði sem lög og reglur gera til upplýsingagjafar um þjónustuna.

Málið hófst þegar Neytendastofa hóf að kanna upplýsingagjöf hjá fasteignasölum hér á landi árið 2016. Skoðaðar voru vefsíður 109 fasteignasala og kannaðir sölustaðir á höfuðborgarsvæðinu. Kom þar í ljós að einungis ein af 109 fasteignasölum uppfyllti skilyrðin. Upplýsti stofan í framhaldinu fasteignasalana um þær skyldur sem á þeim hvíldu.

Í haust á þessu ári var málið aftur kannað hjá sömu fasteignasölum auk nýrra aðila á markaði. Eftir skoðun voru send 72 bréf þess efnis að skilyrði hefðu enn ekki verið uppfyllt. Var þar farið fram á úrbætur.

Þann 5. desember ákvað Neytendastofa, sem fyrr segir, að veita sautján fasteignasölum dagsektir vegna ófullnægjandi verðmerkinga á sölustöðum og vefsíðum. Segir í frétt Neytendastofu að ellefu þeirra hafi nú lagfært vefsíður sínar.

Hægt er að finna frétt Neytendastofu hér en upplýsingar um ákvarðanir hennar er að finna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×