Viðskipti innlent

Pylsusamráðshringur fyrir rétt í Þýskalandi

Atli Ísleifsson skrifar
Currywurst er vinsæll réttur í Þýskalandi.
Currywurst er vinsæll réttur í Þýskalandi. Vísir/Getty
Réttarhöld hófust í Düsseldorf í morgun í máli þýska ríkisins gegn fjórum pylsuframleiðendum sem grunaðir eru um ólöglegt verðsamráð. Talið er að þýskir pylsuunnendur hafi um margra áratuga skeið verið sviknir um gríðarlegar fjárhæðir.

Samkeppniseftirlitið í Þýskalandi fullyrti árið 2014 að fjöldi pylsuframleiðanda hafi um árabil stundað ólöglegt verðsamráð. Farið var fram á miklar sektargreiðslur, en fjöldi þeirra komst hjá þeim vegna glufa í samkeppnislögunum.

Fjögur fyrirtæki liggja þó enn undir grun vegna brota á samkeppnislögum og sæta ákæru. Þau neita öll sök og hafa neitaðgreiðslu sekta. Ellefu fyrirtæki hafa þegar játað sök og greitt sekt sína.

Glufan í lögunum, sem gerði mörgum fyrirtækjum kleift að komast hjá sektargreiðslum, snýr að því að fyrirtæki geta ekki verið ábyrg fyrir því hvað dótturfélög þeirra gera, sé það fyrirtæki ekki lengur til á pappírunum. Löggjafinn brást við ábendingum fyrr á árinu og hefur nú bundið þannig um hnútana að slíkt geti endurtekið sig.

Málið hefur vakið mikla athygli meðal þýsku þjóðarinnar sem þekkt er fyrir pylsuáhuga sinn. Áætlað er að Þjóðverjar neyti að meðaltali um sextíu kílóa af kjöti á ári, þar af þrjátíu kíló af pylsum og annarri unninni kjötvöru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×