Erlent

Þjóðernissinnar unnu sigur í kosningum á Korsíku

Atli Ísleifsson skrifar
Gilles Simeoni, formaður Pè a Corsica, fagnar.
Gilles Simeoni, formaður Pè a Corsica, fagnar. Vísir/AFP
Flokkur þjóðernissinna fékk nærri helming greiddra atkvæða í fyrri umferð héraðskosninga á frönsku eyjunni Korsíku sem fram fóru um helgina.

Flokkurinn Fyrir Korsíku (Pè a Corsica), sem berst fyrir aukinni sjálfstjórn héraðsins, hlaut 45,4 prósent greiddra atkvæða í kosningunum. Fyrr á árinu tryggði flokkurinn sér þrjú af fjórum mögulegum þingsætum eyjarinnar á franska þinginu. Bloomberg greinir frá.

Kosningaþáttakan um helgina var dræm, en einungis um helmingur 234 þúsund atkvæðisbærra manna kaus. La république en marche, flokkur Emmanuel Macron Frakklandsforseta, hlaut einungis um ellefu prósent atkvæða.

Eyjaskeggjar hafa margir látið sig dreyma um aukna sjálfstjórn eyjarinnar og má gera ráð fyrir að meiri þungi verði nú lagður í baráttuna. Áhyggjur franskra yfirvalda af auknum kröfum um sjálfstæði Korsíku hafa vaxið samhliða baráttu Katalóna á Spáni fyrir sjálfstæði.

Barátta Gilles Simeoni, leiðtoga Fyrir Korsíku, hefur hins vegar einkennst af kröfum um aukna sjálfstjórn, fremur en eiginlegt sjálfstæði eyjarinnar.

Síðari umferð héraðskosninganna fara fram 10. desember. Með kosningunum er verið að sameina tvær stofnanir í eitt héraðsþing.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×